Nemar á 3 ári í vöruhönnun taka þátt í alþjóðlega rannsóknarverkefninu Algae for Design-led Transition Towards Blue Bio-economy.

Síðastliðið haust kláruðu þau 13 vikna vinnustofu, undir leiðsögn Tinnu Gunnarsdóttur, þar sem þemað var þörungar. Auk nemenda við Listaháskólann taka nemendur í innanhúss – og grafískri hönnun frá EKA, Listaháskólinn í Tallin og Aalto í Finnlandi þátt en þau hafa lokið sambærilegum námskeiðum.

Afrakstur vinnu þeirra var sýndur í gömlu gallerí í iðnaðarhverfi í Tallinn en sýningin opnaði föstudaginn 3. Júní. Þeir nemendur sem tóku þátt í sýningunni unnu ólíkt með viðfangsefnið og skartaði sýningin því fjölbreyttum verkum með virðingu fyrir þörungum að leiðarljósi. Nemar í innanhússarkítektúr frá EKA sáu svo um hönnun sýningarrýmisins undir leiðsögn Kärt Ojavee. 

Um verkefnið og niðurstöður þess, bók og stuttmynd, má finna á vefsíðu verkefnisins:
https://rainforestsofthenorth.cargo.site/ 

Svo má hér sjá brot úr sýningartexta nemenda LHÍ:

Á Íslandi er oft talað um að hér skorti skóga og að vissu leyti er það rétt. Þegar hinsvegar litið er á skóga í víðara samhengi kemur í ljós að Ísland er umlukið þaraskógi, en þörungar gefa okkur allt að 2/3 af súrefni jarðar. Við upphaf verkefnisins litum við á þörunga sem eitthvað slímugt, óspennandi og illa lyktandi. Þremur mánuðum síðar höfum við áttað okkur á mikilvægi þeirra, fegurð, ógnum og tækifærum. Við vitum að í þeim felast mikil verðmæti en hvernig getum við komið í veg fyrir að vanþekking mannsins á umhverfi sínu ógni lífsskilyrðum þeirra? Markmið okkar er að stuðla að virðingu fyrir þörungum líkt og Íslendingar bera virðingu fyrir mosanum. Með því að rýna í líf þörunga, kynnast ólíkum afbrigðum þeirra, meðhöndla og hlúa að þeim er von okkar að með aukinni þekkingu megi sambúð okkar styrkjast. Eða eins og Guðmundur Páll Ólafsson orðar það „Þú verndar aðeins það sem þú elskar, þú elskar aðeins það sem þú þekkir. Þú þekkir aðeins það sem þér er kennt.”