Kæri rektor, deildarforsetar, starfsfólk, nemendur og aðrir gestir.

Ég heiti Elísa Elíasdóttir og útskrifast úr fiðlu- og píanóleik. Ég stend hér fyrir hönd tónlistarnema og vil nýta tækifærið til þess að þakka fyrir okkur. Árin í Listaháskólanum hafa verið mjög ánægjuleg. Við þökkum kennurum og öðru starfsfólki tónlistardeildar kærlega fyrir samveruna og samvinnuna síðustu ár. Við höfum lært mikið og þroskast sem tónlistarfólk en einnig sem einstaklingar. Þið eigið stóran þátt í því og við erum afar þakklát. Dagurinn í dag markar þáttaskil í lífi okkar. Nú erum við útskrifuð. Sum okkar ætla beint í frekara nám, aðrir eru komnir með vinnu. Enn aðrir ætla að vinna að eigin verkefnum. Okkur býðst nýtt upphaf og ný tækfæri. Þá er mikilvægt að setja sér ný markmið, staldra við og hugsa.

Ég hef einmitt verið að hugsa, hugsa aðeins til baka og rifja upp skemmtilegar minningar frá síðastliðnum árum. Það eru bara 4 ár síðan ég byrjaði í Listaháskólanum en ég hef nú þegar gleymt svo mörgu. Ég man ekki eftir fyrsta skóladeginum, heldur ekkert eftir fyrsta píanótímanum. Ég man ekki hvaða strætó stoppar fyrir utan Sölvhólsgötu og er löngu búin að gleyma því hvernig Tristan hljómurinn er samsettur! Einu mun ég þó aldrei gleyma, sögu sem kennari sagði mér frá sínum námsárum. Nemandinn var að reyna að veiða upp úr kennaranum sínum hverjar framtíðarhorfurnar væru. Flestir tónlistarnemar hafa á einhverjum tímapunkti hugsað „er ég nógu góður? verð ég nokkurn tímann nógu góður?“. Já, svo hann spurði hvernig framtíðin liti út en fékk svona ótrúlega einfalt en viturlegt svar.

Hugsaðu ekki um það. Einbeittu þér að því að vera gagnlegur tónlistarmaður.

Þegar kennarinn sagði mér þessa sögu varð ég allt í einu svo fullviss um tilgang námsins og tónlistar yfir höfuð. Það eru til svo margar heimspekilegar vangaveltur um list og tilgang tónlistar. Það væri auðvelt að finna háfleygara svar en að „vera gagnlegur“ en merkasta persóna mannkynssögunnar sagði: „sælla er að gefa en að þiggja“.

 Síðustu ár höfum við þegið mikið, nú er komið að okkur að gefa af okkur. Í tónlistarnámi hljótum við þjálfun til þess að geta gefið meira og betur af okkur. Við höfum lært af vel menntuðum og reynslumiklum kennurum. Hvað eiga bestu kennararnir sameiginlegt? Þeir gefa mikið af sér. Ég held að kennarinn í sögunni hafi átt við þetta. Að vera gagnlegur er frískandi andsvar við sjálfsmiðuðum eða sjálfselskum hugsunarhætti. Í stað þess að eyða orkunni í að hugsa allt út frá okkur sjálfum, þurfum við að víkka sjóndeildarhringinn. Horfa út fyrir okkar kassa, nú eða gluggalausa æfingaherbergi, og sjá fólkið og tækifærin í kringum okkur.

Ég hlakka til að takast á við næstu verkefni, vinna að nýjum markmiðum og sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég þakka ykkur öllum fyrir samferðina í gegnum listaháskólann. Gangi ykkur sem allra best og enn og aftur... til hamingju með daginn!