Á vormánuðum voru auglýstar lausar til umsókna tvær nýjar stöður sviðsforseta við Listaháskóla Íslands. Annars vegar er um að ræða stöðu sviðsforseta tónlistar og sviðslista og hins vegar stöðu sviðsforseta arkitektúrs, hönnunar og myndlistar. Sviðsforsetar vinna að þverfaglegum markmiðum Listháskólans ásamt rektor, bera ábyrgð á akademískri uppbyggingu, sinna innleiðingu á stefnu Listaháskólans og hafa yfirumsjón með kennslu og rannsóknum. Þeir stýra starfsemi síns sviðs og annast stjórnun og rekstur þess. 

Umfangsmiklu ráðningarferli lauk með ráðningu Þóru Einarsdóttur í starf sviðsforseta tónlistar og sviðslista og Evu Maríu Árnadóttur í starf sviðsforseta arkitektúrs, hönnunar og myndlistar. 

Þóra Einarsdóttir, sviðsforseti tónlistar og sviðslista

Þóra Einarsdóttir lauk MA gráðu í listkennslu frá listkennsludeild LHÍ, meistaragráðu í óperusöng frá Guildhall School of Music and Drama og BMus gráðu í söng frá sama skóla. Þóra er leiðandi listamaður á sínum fagvettvangi og hefur verið mjög virk hér á landi og erlendis. Hún hefur verið fastráðin eða verkefnaráðin í leik- og óperuhúsum nánast samfellt í 25 ár, hefur hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins í tvígang auk þess að hafa hlotið fjölda tilnefninga til Grímuverðlauna sem söngvari ársins og fjölda viðurkenninga en hún var m.a. sæmd hinni íslensku fálkaorðu fyrir framlag til íslenskrar tónlistar árið 2011 og Dannebrogorðunni árið 1996. Þóra hefur góða reynslu af akademískum störfum og kennslu á háskólastigi. Hún hefur kennt við tónlistardeild LHÍ frá árinu 2008, fyrst sem stundakennari og leiðbeinandi en frá 2014 sem aðjúnkt í söng og sem fagstjóri í söng frá árinu 2016. Í starfi sínu sem fagstjóri hefur Þóra lagt áherslu á námsþróun og þróun kennsluhátta. Auk þessa hefur Þóra haldið fyrirlestra og masterklassa víða um heim. Þóra hefur á undanförnum árum komið að þróun námssamfélags í tónlistardeild og sviðslistadeild í samstarfi við deildarforseta, hún var formaður kennslunefndar Listháskólans og stýrði vinnuhópi um handleiðslu í listnámi innan samevrópska meistaranámsins NAIP.

Eva María Árnadóttir, sviðsforseti arkitektúrs, hönnunar og myndlistar

Eva María Árnadóttir lauk MSc gráðu í stjórnun fyrirtækja frá Stockholm School of Economics og BA gráðu í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands. Hún starfaði sem yfirhönnuður, framleiðslustjóri og vöruþróunarsérfræðingur hér á landi og erlendis á árunum 2009 – 2017 og býr að mikilli stjórnunarreynslu úr þeim störfum.
Eva María hefur góða reynslu af akademískum störfum og kennslu á háskólastigi. Hún hefur starfað fyrir Listaháskólann frá árinu 2011, fyrst sem stundakennari, leiðbeinandi og í inntökunefndum og frá árinu 2017 sem aðjúnkt í fatahönnun þar sem hún hefur m.a. lagt áherslu á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar en auk þessa hefur hún starfað sem fagstjóri námsbrautar í fatahönnun og sem verkefnastjóri hönnunar- og arkitektúrdeildar.
Eva María situr í fagráði Fatahönnunarfélags Íslands og í stjórn Rannsóknarstofu í textíl hjá Menntavísindastofu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Jafnframt er Eva María fyrrum formaður Hollnemafélags LHÍ og sat m.a. fyrir hönd þess í fagráði Listaháskólans.