Guðmundur Oddur Magnússon, rannsóknarprófessor við LHÍ, heldur fyrirlestur í Landsbókasafni, Arngrímsgötu 3, miðvikudaginn 24. júní kl 12.10. Viðburðurinn er hluti af Hönnunarmars sem nú stendur yfir og haldin í tengslum við sýningu safnsins á verkum frumherja í prentmyndagerð hér á landi á tímabilinu 1850 – 1930. Kjarni sýningarinnar er safn Ólafs J. Hvanndals (1897 – 1954) og fyrstu myndmótagerðar sem starfrækt var í Reykjavík og hann stofnaði til árið 1919. Er safnið varðveitt í handritasafni Landsbókasafns.  Fyrirlestur Godds byggir á yfirstandandi rannsókn hans á sögu íslensks myndmáls (Sjónarfur í samhengi) sem hlaut styrk úr Rannsóknasjóði og lýkur síðar á árinu. Rannsóknarverkefnið er hýst af Listaháskóla Íslands og unnið í samvinnu við Hönnunarsafn Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.