Hönnunarverðlaun Íslands fóru fram fimmtudaginn 17. nóvember síðast liðinn en þar voru veitt Hönnunarverðlaun Íslands 2022, viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun árið 2022 og heiðursverðlan Hönnunarverðlauna Íslands.

Hönnunarstúdíóið Plastplan bar sigur úr býtum og hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2022 fyrir hugsjón sína, hönnun og stuðning við efnahringrásina. Hönnunarfyrirtækið Fólk Reykjavík hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2022 og Reynir Vilhjálmsson, landslagsarkitekt hlaut Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands 2022
 

Plastplan hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2022

Plastplan er hönnunarstudio og plastendurvinnsla stofnuð árið 2019 af vöruhönnuðinum Birni Steinari Blumenstein og Brynjólfi Stefánssyni. Markmið Plastplan er að stuðla að fullkominni hringrás plastefna og með því sýna fram á mikla möguleika sem felast í hráefninu. Plastplan hefur frá árinu 2017 byggt, þróað og hannað vélar fyrir plastendurvinnslu til að efla úrvinnslu. 
Plastplan á í stöðugu samstarfi við framsækin fyrirtæki, eins  Icelandair, Ikea, Krónuna og 66° Norður og hjálpar þeim að taka auka græn skref í rekstri. Í því felst að Plastplan sækir plast vikulega og skilar sama plasti til baka í formi nýrra nytjahluta, hannaða og framleidda af Plastplan.
 
Meðal þess sem kemur fram í rökstuðningi dómnefndar er að „Starf hönnunarstofunnar og plastendurvinnslunnar Plastplans hefur frá stofnun þess árið 2019 einkennst af sköpunargleði, tilraunamennsku, úrræðasemi og óbilandi hugsjón. Plastplan hefur á þessum þremur árum tekist á við að raungera hringrás plastefna með því að taka það sem til fellur af plasti frá fyrirtækjum innanlands og þróa og framleiða úr því ný og falleg verk, ýmist fyrir sína eigin vörulínu, eða nytjahluti fyrir fyrirtækin sem Plastplan er í samstarfi við. Innviða- og húsgagnahönnun þeirra fyrir Höfuðstöðina, sem er listasafn og menningarsetur byggt í kringum Chromo Sapiens, verk Shoplifter Art / Hrafnhildar Arnardóttur, er einstaklega vel heppnað í viðleitni sinni til að skapa fjölnota umgjörð sem hvorttveggja endurspeglar verk Shoplifters og flæðir samhliða þeim á eftirtektarverðan hátt.“
 
plastplan.jpeg
 

 

 

Fólk Reykjavík hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun árið 2022

Fólk Reykjavík var stofnað árið 2017 með það að markmiði að leiða saman hönnun og framleiðslu með áherslu á sjálfbærni og hringrás hráefna. Fyrirtækið notar náttúruleg og endurunnin hráefni eins og stein, málm, gler, pappír, vottað timbur úr sjálfbært nýttum skógum, endurunnið stál og endurunnin textíl. Úr þessum hráefnum hafa meðal annars verið hönnuð og framleidd borð, hillur, vasar, kertastjakar og ljós.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að hún telur „að fyrirtækinu hafi tekist vel að sýna hverju hægt er að áorka með því að skapa vel hannaða og nytsamlega muni með sjálfbærni í huga. Á meðan framleiðsluferli og markaðssetning hafa gjarnan verið þrándur í götu sjálfstætt starfandi hönnuða hefur Fólk Reykjavík átt í farsælu samstarfi við ýmsa íslenska hönnuði, og þannig aukið vöruúrval sitt. Í vöruþróuninni er horft til sjálfbærni í framleiðslu og að vörurnar séu endingargóðar.

Fyrirtækið hefur haft jákvæð áhrif með fjárfestingum sínum í hönnun auk þess að vera hvatning fyrir önnur fyrirtæki að koma auga á möguleikana sem felast í samstarfi við góða hönnuði og að vinna með sjálfbærni og endurunnin hráefni.“
 
folk.jpeg
 

 

 

Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt hlaut Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands 2022

 
Reynir er brautryðjandi í landslagsarkitektúr á Íslandi og spor hönnunar hans og áhrifa liggja víða. Hann er meðal allra fyrstu íslensku landslagsarkitektanna og eftir hann liggja fjölmörg verk, allt frá skipulagi íbúðahverfa og umhverfishönnun innan þeirra, görðum, útivistarsvæðum og  leiksvæðum  til stærri umhverfisverka eins og snjóflóðavarnargarða. Reynir er  næmur  á hvernig móta má byggt umhverfi og landslag svo úr verði ein samfelld heild. 
Í verkum sínum hefur Reynir ávallt  veitt athygli þeim fjölmörgu atriðum sem tryggja gæði   manngerðs umhverfis;  m.a. hugað að vindum og veðri, aðgengi barna að leik- og útisvæðum og tengslum einkasvæða við almenningssvæði. Í fyrstu skipulagsverkunum sem Reynir kom að var lagður grunnurinn að þeim grænu svæðum sem enn prýða borgina. Reynir hefur unnið með fjölda arkitekta að þróun garða og umhverfis bygginga og haft þar afgerandi áhrif á gæði þess umhverfis sem borgarlandslagið býður upp á.
Reynir er frumkvöðull á sviði landslagsarkitektúrs á Íslandi og hefur haft mikil áhrif á íslenskt borgarlandslag og skipulag sem við munum njóta um ókomna tíð.
 
reynir.jpeg
 

 

 

 
Hægt er að lesa nánar um verðlaunahafa á vefsíðu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
 
Við óskum Plastplan, Fólk Reykjavík og Reyni Vilhjálmssyni innilega til hamingju með verðlaunin!