Óræð lönd / Debatable Lands, bók Bryndísar Snæbjörnsdóttur, prófessors við myndlistardeild LHÍ, og Mark Wilsonkom út á dögunum. Bókin er gefin út í tengslum við sýningarnar Óræð lönd: Samtöl í sameiginlegum víddum í Gerðarsafni og Vísitasíur í Listasafninu á Akureyri síðastliðið haust en fyrir þá sýningu hlutu Bryndís og Mark Myndlistarverðlaun Íslands 2021. Um er að ræða yfirgripsmikla úgáfu um fjölbreytt viðfangsefni listamannanna í umfjöllun Mark Dion, Ross Birrell, Terike Haapoja og Æsu Sigurjónsdóttur. Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson fagna nú 20 ára samstarfi um þverfagleg listrannsóknarverkefni þar sem þau beina sjónum að misvísandi hegðun innan vistkerfisins sem birtist í einstöku samspili manna, dýra og annarra lífvera. Með því að grandskoða staði, aðstæður og félagsleg samskipti sýna þau fram á möguleika þess sem er eða gæti verið og ögra um leið sambandi okkar mannfólksins við umhverfið.
Útgefandi er Gerðarsafn – Listasafn Kópavogs og ritstjóri Æsa Sigurjónsdóttir, listfræðingur. Útgáfan er styrkt af Gerðarsafni, Myndlistarsjóði, Útgáfusjóði Listaháskólans, Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs og Safnasjóði.