Í Opna listaháskólanum getur fólk sótt námskeið sem kennd eru í öllum deildum Listaháskóla Íslands og í nóvembermánuði hefjast þónokkur áhugaverð námskeið. 
 

Byggingarlist á Ísland

Í námskeiðinu Byggingarlist á Íslandi, sem hefst 6. nóvember, er farið yfir þróun byggingarlistar á Íslandi frá aldamótunum 1900 og til samtímans. Fjallað verður um tæknilegar og samfélagslegar forsendur húsagerðar á ólíkum tímaskeiðum. Þá verður stílhugsun, hugmyndafræði og verk einstakra arkitekta sett í samhengi við heildarþróun byggingarlistar á tímabilinu.
 

Listin að halda fyrirlestur

Námskeiðið Listin að halda fyrirlestur- Rödd, áheyrileiki og framkoma hentar öllum sem vilja ná betri tökum á því að koma fram og halda erindi og fyrirlestra. Í námskeiðinu, sem hefst 6. nóvember, er lögð áhersla á að þróa persónulegan frásagnarstíl hvers þátttakanda. Þátttakendur fá þjálfun í framsögn í gegnum verklegar æfingar, öndun, raddæfingar og fjölbreytta fyrirlestra.
 

Námsefnisgerð

Námsefnisgerð nýtist kennurum og listafólki sem sinnir kennslu og miðlun á breiðum vettvangi. Fjallað er um námsefni og námsgögn sem notuð eru hér á landi, einkum á grunnskólastigi. Einnig eru skoðuð nokkur dæmi um erlend námsgögn. Leitað er svara við spurningunni: Hvert er hlutverk námsgagna? Rýnt er í ólíkar gerðir námsgagna og ýmiss konar námsefni er  kannað og greint með hliðsjón af greiningarlykli.
 
Skoðað er með dæmum hvernig fræðileg afstaða er útfærð í námsefni til dæmis í tengslum við kennsluaðferðir. Rætt er um lykilhugtök í námsefnisgerð og fjallað um rannsóknir og kenningar í tengslum við hana. Nemar spreyta sig á gerð verklýsingar fyrir námsefnisgerð að eigin vali. Námskeiðið hefst 6. nóvember. 
 

Formfræði – Umhverfi

Í námskeiðinu Formfræði - Umhverfi er skoðað með hvaða hætti nota má umhverfið sem uppsprettu hugmynda í skapandi vinnu með formfræði. Námskeiðið hefst 7. nóvember og nýtist öllum sem koma að myndlistarkennslu eða þverfaglegri kennslu í skólum, frístundaheimilum eða safnafræðslu. Rannsókn og læsi á nærumhverfið liggur til grundvallar í öllum verkefnunum ásamt vinnu með punkta, línur, fleti, form og rými. Hugmyndir eru þróaðar í tvívíðar og þrívíðar skissur og einföld líkön.
 

Stafrænir miðlar og skapandi skólastarf

Stafrænir miðlar og skapandi skólastarf hefst 9. nóvember. Í því er fjallað um nám og kennslu út frá sköpun sem einum af grunnþáttum menntunar. Einnig út frá lykilhæfni eins og hún er skilgreind í námskrám sem; tjáning og miðlun, skapandi og gagnrýnin hugsun, sjálfstæði og samvinna og ábyrgð og mat á eigin námi.
 
Farið verður yfir kennsluaðferðir sem ganga út á virkt nám, verkefnatengda nálgun og samþættingu námsgreina. Sjónum verður sérstaklega beint að stafrænni tækni og þeim möguleikum sem hún býður upp á til sköpunar og miðlunar í skólastarfi. 
 

Raftónlistarsaga

Raftónlistarsaga er fyrir áhugafólk um tónlist. Rakin verður saga raf- og tölvutónlistar þar sem kynntar verða helstu stefnur og straumar  á því sviði og helstu tónskáld og tónverk sem þar koma við sögu. Í Raftónlistarsögu II verður  farið yfir tímabilið eftir tilkomu tölvunnar, þ.e. frá u.þ.b. 1970. Ekki verður farið djúpt í tónfræði-  eða tækniatriði þannig að þetta námskeið getur vel nýst nemendum úr öðrum deildum en  tónlistardeild. Námskeiðið hefst 13. nóvember.
 

Leiklistarmeðferð

Í leiklistarmeðferð, sem hefst 19. nóvember, eru aðferðir leiklistar notaðar til að hjálpa fólki að öðlast betri skilning á sjálfum sér og umhverfi sínu og til að hvetja til breytinga. Leiklistarmeðferð hefur verið notuð með góðum árangri með ólíkum hópum í mörg ár t.d. á geðdeildum, meðferðarheimilum, í fangelsum, á elliheimilum, í skólum og á einkareknum meðferðarstofum.
Námskeiðið nýtist kennurum, leikhúsmenntuðu fólki og þeim sem starfa með börnum og ungmennum. Í námskeiðinu fá nemendur innsýn í uppruna, kenningar og aðferðir leiklistarmeðferðar í gegnum stutta fyrirlestra, umræður og þátttöku í verkefnum og æfingum.