Námskeið á döfinni í Opna listaháskólanum í apríl 2019

 
 
Opni Listaháskólinn er gátt Listaháskóla Íslands út í samfélagið þar sem þekking og reynsla fær að streyma óhindrað í báðar áttir. 
 
Í gegnum Opna LHÍ getur fólk sótt stök námskeið sem kennd eru í öllum deildum Listaháskóla Íslands.
 
 

Umsjónarkennarinn

 
Námskeiðið, sem hefst 2. apríl, hentar öllum list- og verkgreinakennurum sem sinna umsjónakennslu eða stefna á að sinna umsjónarkennslu.
 
Í námskeiðinu verður sjónum beint að mikilvægi umsjónarkennarans í almennu skólastarfi og því sem kalla má hinar þrjár víddir umsjónarkennarastarfsins.
 
Kennari er Ingimar Ólafsson Waage, aðjúnkt og starfandi fagstjóri sjónlista í listkennsludeild, myndlistamaður og er einnig með M.Ed í heimspeki menntunar frá Háskóla Íslands. Ingimar hefur auk þess kennt heimspeki, lífsleikni og myndmennt og verið umsjónarkennari nemenda á unglingastigi í Garðaskóla í Garðabæ í árafjöld.
 
 
 

Gagnrýnin hlustun

 
Í námskeiðinu, sem hefst 2. apríl, er lögð áhersla á að rannsaka hljóðmenningu og tengsl hlustunar, hávaða, þagnar og valds. Þá skoðum við samspil tónlistar og samfélags en hugmyndir um tónlist sem spegil félagslegra breytinga, og jafnvel glugga inn í mögulega framtíð, hafa fylgt vestrænni tónlistarhefð um aldir. Í námskeiðinu munum við einnig skoða hið hlustandi sjálf og hverjir möguleikar gagnrýninnar hlustunar eru til þróunar róttæks skilnings.
 
Námskeiðið er í formi leshóps þar sem lesnir verða valdir textar en jafnframt stuðst við mynd- og ítarefni, tónlist og hávaða.
 
Lögð er áhersla á virka viðveru og gagnrýna hlustun.
 
Kennari er Njörður Sigurjónsson. Njörður er doktor í menningarstjórnun og dósent við Háskólann á Bifröst.
 
 
 

Aðferðir tónlistar í kennslu

 
Í námskeiðinu, sem hefst 30. apríl, er lögð áhersla á hagnýta nálgun í tónlist. Nemendur kynnast fjölbreyttum leiðum til tónsköpunar, textavinnu og fjölbreyttum kennsluháttum tónlistar. Þeir kynnast hagnýtum og fjölbreyttum aðferðum tónlistarnáms og kennslu.
 
Lögð verður áhersla á að veita innsýn í hvernig tengja má tónlist við allar námsgreinar þegar unnið er með fjölbreytt viðfangsefni og samþættingu.
 
Námskeiðið er fyrst og fremst verklegt þar sem gerðar eru tilraunir með kennsluaðferðir tónlistar og margvísleg verkefni.
 
 
Kennari er Gunnar Ben. Gunnar er aðjúnkt við tónlistardeild og fagstjóri skapandi tónlistarmiðlunar. Hann starfaði sem tónmenntakennari í grunnskóla í 13 ár, stjórnar kórum, semur leikhústónlist og spilar þungarokk. Gunnar útskrifaðist með postgraduate gráðu í skapandi tónlistarmiðlun frá Guildhall School of Music and Drama árið 2000.