Aðferðir lista í kennslu

 
 
Listaháskóli Íslands býður upp á nýjan kost í flóru kennaramenntunar á Íslandi en á haustönn 2019 verður boðið upp á nýja námsleið í háskólanum. 
 
Meistaranám í kennslufræðum miðar að því að mennta fólk sem hefur lokið námi á almennum fræðasviðum en vill nota aðferðir lista í kennslu. 
 
 
Kristín Valsdóttir er deildarforseti listkennsludeildar LHÍ þar sem boðið er upp á nýju námsleiðina.
 

Listaháskólinn- kjarnaskóli skapandi greina

Í stefnu Listaháskólans kemur fram að skólinn er kjarnaskóli skapandi greina og forystuafl innan íslensks háskólasamfélags um þróun þeirra og viðgang. 
Nú þegar útskrifar Listaháskólinn í kringum tuttugu listgreinakennara á ári og hefur gert frá árinu 2009 er listkennsludeild var stofnuð. Deildin fagnar því 10 ára starfsafmæli á árinu 2019. Deildin er byggð á kennsluréttindanámi sem í boði var frá 2001 – 09 og útskrifuðust á annað hundrað listkennarar þaðan. 
 

Vel menntaðir kennarar eru forystuafl

 „Að geta tjáð sig á fjölbreyttan hátt eins og í gegnum tónlist, myndlist, hreyfingu og leik er manneskjunni eðlislægt. Vel menntaðir listkennarar skipta sköpum í uppbyggingu og þróun lista í samfélaginu en þeir eru ekki síður mikilvægir til að skapa vettvang fyrir alla nemendur til að tjá sig á fjölbreyttan hátt.
 
Með nýrri námsbraut er markmiðið að efla hlut lista og ólíkrar aðferðafræði þessara fagsviða enn frekar í skólastarfi. Með því að opna á nám fyrir fólk með bakkalárgráðu í öðrum greinum sem hefur áhuga og einhverja þekkingu á aðferðum lista er byggð brú milli ólíkra greina og fagsviða. Þannig vill Listaháskólinn skila fleiri vel menntuðum kennurum út í samfélagið sem geta verið forustuafl skapandi greina,“ segir deildarforsetinn. 
 
„Markmiðið er að bjóða nám þar sem hópur fólks úr ólíkum fræðigreinum vinnur í þverfaglegu samtali að þróun náms- og kennslu með áherslu á aðferðir lista með sem víðtækustum samfélagslegum og hugmyndafræðilegum skírskotunum. Það er nefnilega ekki síður mikilvægt í okkar síbreytilega samfélagi að við rjúfun múra milli fagsviða og greina. Við slíkar aðstæður verður oft eitthvað nýtt og ófyrirséð til.“ 
 

Heildræn hugsun um nám og kennslu

Munurinn á námi í kennslufræðum og listkennslufræðum liggur helst í inntökuskilyrðum þar sem ekki er krafist listmenntunar heldur óskilgreindrar bakkalárgráðu umsækjenda útskýrir Kristín „Nemandi lýkur þá ekki meistaragráðu sem listkennari með áherslu á ákveðna listgrein heldur sem almennur kennari með áherslu á skapandi listmiðað skólastarf á grunni þeirrar sérhæfingar sem hann býr yfir.“ 
 
Umsækjendur í námið þurfa að hafa lokið fagmenntun  eða BA gráðu í grein. Gildir einu hvort um er arð ræða náttúrufræði, stærðfræði, íslensku, efnafræði, tungumál svo eitthvað sé nefnt.
 
„Kennaranemar í listmiðuðu kennaranámi verða því með ólíkan bakgrunn og vonandi, víðtæka menntahugsjón samfara áhuga á kennslufræði sem byggir á aðferðum lista. Einstaklingar sem hugsa heildrænt um nám og kennslu.“ 
 

Einstaklingsmiðað námsframboð

Á árunum 2008-2013 var framkvæmd umfangsmikil rannsókn á starfsháttum í íslenskum grunnskólum en hún leiddi í ljós þörf á því að tengja námsgreinar betur saman og efla þverfaglegt samstarf kennara innan grunnskólans. 
 
„Það er ljóst að margir almennir kennarar hugsa til listgreina og sköpunar sem vettvangs fyrir slíkt þverfaglegt samstarf en einnig að nýta sér aðferðir lista í sinni kennslu. Þetta kallar á námsframboð sem kemur til móts við einstaklinga sem hafa áhuga á kennslu og vilja tengja það aðferðum lista en hafa ekki fengið listmenntun, “ segir Kristín. 
 

Undirbúningur fyrir framtíðina

Á þingi um list- og verkgreinar vorið 2018 var samþykkt sú tillaga að fela skólamálaráði KÍ að finna leiðir til að efla og auka vægi list- og verknáms í skólakerfinu í samstarfi við kennara. Ný námslína sem hér er kynnt hefur burði til að koma inn á og efla alla þessa þætti hjá verðandi kennurum sem geta þá miðlað og styrkt nemendur framtíðarinnar. 
 
„Menntamálaráðherra ræddi meðal annars um fjórðu iðnbyltinguna og breyttar áherslur í menntun ungmenna með hliðsjón af þeim öru breytingum sem eiga sér stað í samfélögum á okkar tímum“ segir Kristín og bætir við að í skýrslunni The future of Jobs sem gefin var út af World Economic Forum séu talin upp tíu atriði sem skýrsluhöfundar draga fram sem mikilvægustu færni sem einstaklingar þurfa að búa yfir í nánustu framtíð. 
 
„Það er færni eins og lausnamiðuð og gagnrýnin hugsun, sköpun, að tengjast öðrum, tilfinningagreind o.fl., en þetta eru allt eiginleikar sem listnám eða aðferðir lista í öðru námi geta styrkt.“
 

Nýr kostur í flórunni

Kristín segir að miðað við fjölda fyrirspurna sem borist hafa frá áhugsömum um námið í listkennsludeild má ætla að námsleið sem þessi fyrir verðandi kennara, sé nýr og spennandi kostur í flóru kennaramenntunar á Íslandi. 
 
„Það er trú okkar að með því að mennta fleiri kennara með þekkingu á listum og vinnubrögðum þeirra eflum við þátt lista og verkþekkingar í skólunum, nemendum til hagsbóta. Þannig komum til móts við þarfir fleiri nemenda og einnig getur fjölgun kennara með slíkan bakgrunn í grunnskólum eflt samvinnu milli ólíkra greina grunnskólans og skapað eitthvað nýtt“.