Meistaranám í kennslufræðum í listkennsludeild Listaháskóla Íslands

 
Listaháskóli Íslands býður upp á nýjan kost í flóru kennaramenntunar á Íslandi en á haustönn 2019 verður boðið upp á nýja námsleið í háskólanum. 
 
 
Meistaranám í kennslufræðum í listkennsludeild (e. Arts Based Teacher Education) miðar að því að mennta fólk sem hefur lokið námi á almennum fræðasviðum en vill nota aðferðir lista í kennslu. 
 
 
Vel menntaðir kennarar skipta sköpum í uppbyggingu og þróun samfélagsins. Með nýrri námsbraut er markmiðið að efla hlut lista og ólíkrar aðferðafræði þessara mismunandi fagsviða enn frekar í skólastarfi. 
 
Með því að opna á nám fyrir fólk með bakkalárgráðu í öðrum greinum sem hefur áhuga og einhverja þekkingu á aðferðum lista er markmiðið að byggja brú milli ólíkra greina og fagsviða.
 
Þannig vill Listaháskóli Íslands skila fleiri vel menntuðum kennurum út í samfélagið sem geta verið forustuafl skapandi greina.
 

Nánar um námið

 
Markmiðið er að bjóða nám þar sem hópur fólks úr ólíkum fræðigreinum vinni í þverfaglegu samtali að þróun náms og kennslu með áherslu á aðferðir lista með sem víðtækustum samfélagslegum og hugmyndafræðilegum skírskotunum.
 
Námið er fjölbreytt og byggir á námskeiðum í kennslu- og sálarfræði, aðferðum lista/listsköpunar, heimspeki og félagsfræði, samhliða þjálfun í kennslu og miðlun kennsluefnis og verkefna á vettvangi bæði innan skólakerfisins og utan þess.
 
Áhersla er lögð á að nemendur öðlist skilning og þekkingu á starfi kennarans, bæði fræðilega og á vettvangi. Þeir geti skipulagt nám og námsþætti út frá gildandi námskrám og valið námsgögn, náms- og matsaðferðir við hæfi. Kennsla og miðlun eru einnig skoðuð í víðara samhengi og nemendur hvattir til að setja fram eigin sýn og hugmyndir um nám og námsframboð í samfélaginu.
 
Einnig er lögð áhersla á efla persónulega færni nemenda með markvissri þjálfun í að setja sér persónuleg og fagleg markmið sem reyna á sjálfstæði og úthald ásamt tjáningar- og miðlunarhæfni. Með stöðugu samtali og samstarfi á milli greina er opnað fyrir framþróun og nýja möguleika í kennslu. 
 

Skipulag

Nemendur sem hefja nám við námslínuna þurfa að hafa lokið bakkalárprófi eða sambærilegu háskólanámi á fagsviði sínu.
 
Námið er nemendamiðað 120 einingar í staðnámi. Nemendur útskrifast annað hvort með M.Ed. gráðu eða MA gráðu (rannsóknartengd gráða). 
Auk almennra réttinda sem meistaragráða veitir til frekara náms og starfa fá nemendur starfsréttindi (leyfisbréf) til almennrar kennslu á grunnskólastigi og geta sótt um leyfisbréf til kennslu á sínu fagsviði eða kennslugrein á framhaldsskólastigi.
 

Útskriftarverkefni

Lokaverkefni geta verið í formi fræðilegrar ritgerðar, nýs námsefnis, rannsóknar eða skipulagningar viðburðar. Verkefnin tengjast þó öll kennslu og miðlun á einhvern hátt. Áhersla er lögð á sjálfstæð fagleg vinnubrögð, skapandi nálgun, gagnrýna hugsun, ígrundun á eigin frammistöðu og mótun eigin starfskenningar.
 
Markmið deildarinnar er að tengja vinnu nemenda við verkefni utan skólans. Sem dæmi um slíkt hafa útskriftarverkefni verið unnin í samstarfi við ýmsa grunn- og framhaldsskóla sem og sérskóla. Einnig hafa verkefni verið unnin í samstarfi við listasöfn, listahátíðir, fyrirtæki og menningarmiðstöðvar ásamt sjálfstætt starfandi lista- og fræðimenn. Þátttaka nema við listkennsludeild í Barnamenningarhátíð er t.a.m. árlegur viðburður.