Skapandi ferli, leiðarvísir eftir Eirúnu Sigurðardóttir er komin út.

Skapandi ferli, leiðarvísir er handbók jafnt fyrir einstaklinga í sjálfsnámi sem og kennara sem ætla sér að stíga út í óvissu skapandi ferlis ásamt nemendum sínum.
Hér er kynnt til sögunnar aðferðafræði sem auðvelt er að tileinka sér og þróa eigin leiðir útfrá. Bókin byggir á þekkingu og reynslu Eirúnar Sigurðardóttur, myndlistarkonu, af kennslu

við Listaháskóla Íslands og áratuga starfi á mörkum listgreina.

Skapandi ferli listafólks er rannsóknarvinna sem leitast við að finna ófyrirséðar niðurstöður. þetta eru aðferðir sem nýtast vel í allri gagnrýnni hugsun og gefa um leið tilfinningum og innsæi mikilvægt rými.

Bókin er gefin út með styrk frá Starfsþróunarsjóði akademískra starfsmanna Listaháskólans

Eirún Sigurðardóttir útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1996. Hún stundaði tveggja ára framhaldsnám við Hochshule der Künste Berlín og lauk diplómu á M.A. stigi í hagnýtri jafnréttisfræði frá Háskóla Íslands árið 2014. Eirún hefur kennt stundakennslu við myndlistardeild Listaháskóla Íslands frá 2001.

Áherslan sem lögð er í Skapandi ferli, leiðarvísir, byggir á kennslureynslu og myndlistarstarfi Eirúnar sem vinnur í alla þá miðla og efni sem þjóna hugmyndum hennar hverju sinni, hvort sem þær krefjast flæðandi vatnslitar, gjörnings eða mótatimburs svo dæmi séu tekin.

Eirún er jafnframt einn af meðlimum Gjörningaklúbbsins/The Icelandic Love Corporation sem hefur starfað óslitið frá 1996 og hlotið ýmsar viðurkenningar og haldið fyrirlestra við listaháskóla og söfn hér heima og erlendis. Gjörningaklúbburinn hefur sýnt verk sín víða um heim í söfnum og galleríum og á verk í eigu innlendra og erlendra safnara og safna m.a. TBA21 í Vínarborg og MoMA í New York.