Páll Ragnar Pálsson, tónskáld, og aðjúnkt við tónlistardeild LHÍ, gefur út plötuna Nostalgiu í samstarfi við Smekkleysu. Útgáfudagur er 2. júní.

NOSTALGIA er fyrsta plata með tónsmíðum Páls Ragnars. Platan inniheldur verk samin á árunum 2009-2015 og eru strengjahljóðfæri áberandi. Títilverkið er fiðlukonsertinn Nostalgia í flutningi Unu Sveinbjarnardóttur og Sinfóníuhljómsveitar Íslands, stjórnað af Daníeli Bjarnasyni. Verkið var valið tónsmíð ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2013.

Upptakan af Supremacy of Peace með Kammersveit Tallinn undir stjórn Risto Joost var valin af eistneska ríkisútvarpinu til þáttöku á alþjóðlega tónskáldaþinginu í Prag 2013. Verkið hefur síðan þá orðið mest flutta verk Páls Ragnars. Náttúruljóð eru samin við samnefnd ljóð Sjóns. Verkið er fyrir sópran og strengjakvartett og kemur fram á plötunni í flutningi Tui Hirv, sópran; Unu Sveinbjarnardóttur, fiðla; Pálínu Árnadóttur, fiðla; Guðrúnar Hrundar Harðardóttur, víóla og Hrafnkels Orra Egilssonar, selló. Spiegeltunnel fyrir strengjasveit var pantað af Guðný Guðmundsdóttur fyrir strengjasveitina SKARK til flutnings í samnefndri speglainnsetningu Ólafs Elíassonar á opnun hátíðarinnar Cycle í Kópavogi.

Á árum áður spilaði Páll Ragnar með hljómsveitinni Maus. Eftir að hafa lokið grunnnámi í tónsmíðum við Listaháskólann fór Páll Ragnar til Tallinn í framhaldsnám hjá Helenu Tulve þaðan sem hann útskrifaðist með doktorsgráðu árið 2014. Verk Páls Ragnars hafa verið flutt víða um Evrópu og nú síðast í Bandaríkjunum á tónleikum Los Angeles fílharmóníunnar á tónlistarhátíð tileinkaðri Íslenskri tónlist.

Útgáfan er samstarfsverkefni Smekkleysu og Konveier, félags Páls Ragnars og Tui Hirv.
Curver Thoroddsen hljómjafnaði plötuna, Bergur Finnbogason hannaði umslagið.
Listaverk á umslagi er úr Landlit seríunni (1967-1970, blönduð tækni) eftir Valgerði Briem (1914-2002), ömmu Páls Ragnars.

 

pallragnarpalsson.com