Norrænir söngvar, leikir og dansar á nýjum kennsluvef
 
Norrænir tónar - nordicsounds.info er nýtt kennsluefni í tónlist og dansi sem kom út á dögunum. Námsefnið hefur að geyma sönglög, rímur og þulur, texta s.s. ljóð og sögur, dansa og leiki og var efninu safnað saman í nánu í samstarfi við innlenda kennara í hverju landi, að Álandseyjum og nýju lagi frá Samísku tónskáldi meðtöldum.
 
„Vefurinn Norrænir tónar inniheldur sérvalið efni í tónlist og hreyfingu frá Norðurlöndunum og byggir á hugmyndum og aðferðarfræði Carl Orff í tónlistar- og hreyfikennslu. Við fengum styrk frá Nordic Plus, Horizontal til starfans og gátum þannig að hittast í hópum og vinna verkefnið saman“ segja íslensku ritjórarnir, Elfa Lilja Gísladóttir, Kristín Valsdóttir og Nanna Hlíf Ingvadóttir. Með þeim í ritstjórn voru finnskir kollegar, þær Soili Perkiö, tónskáld og kennari við Sibeliusarakademíuna (University of the Arts Helsinki) og Elisa Seppänen. „Það sem er spennandi við þessa námsefnisgerð er, í fyrsta lagi að vöntun hefur verið á heildstæðu námsefni í tónlist og dansi sem tekur fyrir menningararf Norrænu þjóðanna en einnig það að hafa efnið á vef. Með því móti er hægt er að bæta við nýju efni og ítarefni eftir þörfum s.s. fleiri hugmyndum að útfærslum, myndum af landsvæðum, hljóðupptökum af sönglögum, útsetningum af nýjum lögum o.fl.“ bæta þær við.
 
Efninu er skipt eftir löndunum sjö sem eru; Ísland, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Danmörk, Færeyjar og Grænland. Í hverjum kafla eru sönglög, leikir, textar, hljóðfæravinna ásamt dönsum frá viðkomandi landi. Þar eru einnig upplýsingar um hefðbunda framsetningu efnis að viðbættum tillögum að nýjum skapandi vinnuleiðum og útfærslu. Hverri hugmynd eða sönglagi fylgja upptökur af dönsum, framburði á texta, laglínu og útfærslu hugmynda þar sem við á.
 
„Við opnuðum vefinn Nordic Sounds á viðhafnarnámskeiði í Finnlandi í fyrra. Hann fékk viðurkenningu þar sem eitt af áhugaverðustu námsverkefnum ársins enda væri hann brú milli fortíðar, nútíðar og framtíðar,“ upplýsir Elfa Lilja. Einnig var okkur boðið til Kaliforníu nú í apríl 2019 þar sem við kynntum efnið og sáum um námskeið fyrir meira en 100 tónlistarkennara víðsvegar að úr Kaliforníu. Það var ógleymanleg reynsla þar sem efninu og okkur var hampað á ótal vegu“ rifja viðmælendur upp.
 
„Um næstu helgi 31.jan – 1. febrúar verðum við svo með hátt í 50 tónmennta-og tónlistarkennara úr íslenskum skólum á námskeiði á Laugarvatni. Með okkur verða kennarar frá Noregi og Finnlandi sem kynna sitt efni og Nanna er búin að sérhæfa sig dálítið í því grænlenska og færeyska. Ekki nóg með það heldur ætlum við líka með vefinn á alþjóðlega ráðstefnu í ágúst. En mest spennandi í augnablikinu er að fá að deila efninu með frábærum hópi tónmennta- og tónlistarkennara á Laugarvatni“ segja þær stöllur.
 
screen_shot_2020-01-29_at_16.39.58.png
Mynd: Anton Brink

 

Nánar um verkefnið

 
Markmið með útgáfu sem þessari er að efla og dýpka þekkingu okkar og skilning á eigin menningu tengdri söng, dansi og sögum ásamt því kynnst betur menningararfi nágranna okkar á Norðurlöndum.
 
Námsefnið Norrænir tónar er hugsað þvert á aldur og hentar því vel bæði fyrir nemendur og kennara á grunn- og miðstigi grunnskóla. Það er hins vegar opið í báða enda, ef svo má að orði komast, því í gegnum hinn opna skapandi þátt gætur það hentar bæði börnum á leikskólaaldri sem og fullorðnum. Einnig gæti það nýst kennurum í tónlistarskólum og þá sérstaklega forskólakennurum.
 
Námsefnið hefur að geyma sönglög, rímur og þulur, texta s.s. ljóð og sögur, dansa og leiki og heyrir því undir tónmennt, dans og samfélagsgreinar.
 
Norrænir tónar námsefnið kemur einnig að góðum notum í þemavinnu þegar unnið er með Norðurlöndin og önnur verkefni sem tengjast söng, dans og leikjahefðum í ólíkum löndum.
 
 
Orff-Schulwerk 
 
Orff-Schulwerk kennslufræðin er heildstæð, nemendamiðuð tónlistar- og dansmenntun. Kennslufræðin byggist á gagnvirku kennsluferli þar sem grunneiningarnar eru: hlustun, tal, söngur og leikur. Nemendur byrja á að gera tilraunir með hljóð, tóna, laglínur og dans sem smám saman þróast út í spuna, tónsmíð og samningu dansa. Slík könnun leiðir oft til margvídda flutnings þar sem bæði ljóð, leiklist og sjónlistir leika hlutverk.
 
Orff-Schulwerk kennslufræðin er ekki bundin neinu sérstöku umhverfi eða markhópi. Þó er kennslufræðin mest notuð í námi og kennslu ungra barna og nemenda grunnskóla. Einnig hafa kennarar notað Orff kennslufræðina í kennslu hjá ungabörnum, táningum, ungu fólki, nemendum með sérstakar þarfir, hjá eldri borgurum og svona mætti lengi telja. Kennsluðarferðin krefst þess að kennarinn beiti allri sinni hæfni, þjálfun, listrænu innsæi, bakgrunnsþekkingu og bjóði þannig nemendum sínum upp á skapandi vinnu og frumlegheit í kennslu sinni.
 
Grunnþættir Orff-Schulwerk kennslufræðinnar eru:
  • Hreyfing, mannsrödd, tungumál, dans og hljóðfæri skapa heild (musiké).
  • Fínstilling á sköpunarkrafti nemandans, veita örvun og rými til sköpunar.
  • Læra með því að reyna sjálfur, gera eigin tilraunir, leikur í námi.
  • Að skapa tónlist í hóp, með því að syngja, hreyfa sig og leika – tækifæri til að læra saman og af öðrum í hóp þar sem hæfni og áhugi er mismunandi milli einstaklinga.
  • Lærdómsferlið er aðlagað að hverjum nemendahóp, kennarinn sér um að velja eðlilegustu leiðina  úr mörgum og  margvíslegum vænlegum leiðum.
  • Byggt er á rótum eigin menningar: söngvum, dönsum, þjóðlegum hljóðfærum. Einnig barnagælum, ljóðum, sögum á þann hátt nálgast nemandinn menningu þjóðar.
  • Hljóðfæri sem hvetja til samleiks og leiða til dans, hreyfingar og einstaklingsbundinnar tjáningar.
  • Spuni, tónsmíð og samning á frumlegu efni. Þetta er samþætt hlustun, úrvinnsla á þekktum tónverkum og öflun tónlistarþekkingar.
 
Sjálfur Carl Orff lýsti nálgun sinni sem hugmynd, „villiblómi“, fræi sem fellur í mold og spírar og blómstrar ef aðstæðurnar í jörðinni eru fyrir hendi. Á þennan hátt hefur hugmynd hans skotið rótum í meira en 40 löndum víðs vegar um heiminn.
 
Orff-Schulwerk kennslufræðin er í grunninn ekki bundin neinu sérstöku umhverfi eða markhópi. Þó er kennslufræðin mest notuð í námi og kennslu ungra barna og nemenda grunnskóla. Margir hafa notað Orff nálgun í tónslit og hreyfing í kennslu hjá ungabörnum, ungu fólki, nemendum með sérstakar þarfir, hjá eldri borgurum og hópum sem standa höllum fæti. Það fer í raun eftir samsetningu hópsins og markmiði vinnunar hvaða þættir nálgurarinnar eru í forgrunni.
 
Eitt meginstefið í kennslufræði Orff-nálgunar er sköpun. Þá er átt við að kennarinn skapi aðstæður fyrir samsköpun nemenda. Þó efniðviðurinn sé þekktur, eins og í þessu tilviki, þjóðlegt efni þá eru vinnuaðferðirnar opnar og með það leiðarljósi að nemendur skapi eigin útfærslu í gegnum mússiseringu og hreyfingu.
 
Að vinna með öðrum að nýjum verkefnum þar sem þarf að deila hugmyndum, taka afstöðu, skapa og endurskapa eflir gagnrýna hugsun og félagsfærni nemenda. Það að setja saman verk og flytja fyrir áheyrendur veitir ómælda gleði en ekki síður sjálfstraust sem eflir sjálfsmynd. Í gegnum slíka vinnu er opnað á tækifæri fyrir alla nemendur til að leggja sitt af mörkum. Við manneskjurnar búum yfir ólíkum hæfileikum og áhugasviðum og það kemur oft fram í skólastarfi að þeir sem minna una við lestur og bóklegri greinar sýna oft áhuga og leikni á öðrum sviðum. Stundum fá þessir nemendur fá tækifæri til að blómstra og því teljum við að fjölga beri ólíkum leiðum í námi barna. Með því getum við komið á móts við fleiri nemendur, oft nemendur sem standa höllum fæti, og opnað á tækifæri fyrir þau til að blómstra og efla þannig sjálfsmynd sína og líðan.
 
Hvað varðar orðaforða og hugtakaskilning þá er þekkt að við lærum betur orð þegar þau eru sungin eða gerð hreyfing með. Ekki einungis lærum við þau hraðar heldur dýpkar skilningur okkar á orðunum þegar þau eru tengd við tóna og hreyfingu. Þessir eiginleikar tónlistar og hreyfingar eru mjög mikilvægir þættir til að efla skilning innflytjenda á íslensku. Á sama tíma er efnið nátengt íslenskri menningu og gefur innsýn í eldri hefðir og þjóðsögur Íslendinga. Þó aðeins hluti af efninu sé á íslensku þá opnar erlenda efnið á umræðu um ólíka menningu og þar með á að ræða mismunandi bakgrunn nemenda svo sem innflytjenda. Umræða sem, þegar best lætur, getur stuðlað að gagnkvæmum skilningi og þar með meira jafnrétti í skólastarfi.
 
Þó námsefnið komi ekki beint inn á náttúru- og stærðfræði þá má nota það sem útgangspunkt um náttúru og landafræði á norðurslóðum Margt af efninu á rætur í náttúrutengdum atburðum eða fyrirbærum; norðuljósin, kuldi, myrkur, vötn og skógar, sjávarháski og svona mætti lengi telja. Í raun ótejandi útgangspuntkar fyrir umræðu og fræðslu um náttúruna – hvað hún gefur og tekur og hvar hætta steðjar að. Hvað varðar stærðfræði þá er tónlist í raun stærðfræði og hægt að nýta sér uppbyggingu mismunandi takta til að telja út, finna hlutföll og form o.fl.
 
Læsi  er margslungið fyrirbæri og þó læsi á letur og texta sé sá þáttur sem mest er lagt upp úr í grunnnámi þá er læsi svo miklu víðara hugtak. 
 
Læsi á tóna, hreyfingu og mannlega hegðun skipta gífurlegu máli í öllum samskiptum. Í kennsluefninu er einnig áhersla á læsi á orð og læsi á ólíka menningu sem efla skilning á hefðum og tungumálum annarra norrænna þjóða. Það að fá tækifæri til að læra nýja tónlist, frá ólíkum löndum og geta útfært hana á eigin hátt á jafnréttisgrunni í samvinnu við aðra, eykur tilfinningu og skilning nemenda fyrir fjölbreytileika mannlífs og ólíkum menningum. Það styður við sjálfbærni í samfélagslegum skilningi þannig, að nemendur, í gegnum lýðræðisleg vinnubrögð, þroska með sér samkennd og samhug. Samkennt og samhugur eru líka grundvöllur skilnings sem auðvelda lýðræðisleg vinnubrögð sem þroska hugmyndir um velferð og jafnrétti. Einnig má segja að með því að gefa efnið út rafrænt sé verið að koma á móts við þekktasta skilning okkar á hugtakinu sjálfbærni m.a. með því að spara náttúrulegan efnivið eins og tré til bókagerðar og prentunar.
 
Það er samdóma álit höfunda verkefnisins að það að vinna saman á skapandi hátt í söng, hreyfingu og dansi séum við að stuðla að andlegu og líkamlegu heilbrigði nemenda. Tónlist og söngur er ein fárra greina sem sameinar á órjúfanlegan hátt vitræna, tilfinningalega og félagslega þætti. Með því að læra lag/ texta (vitrænt), ljá honum blæ í gegnum túlkun (tilfinningalegt) myndast samstaða og samkennd (félagslegt). Þegar hreyfing og dans bætast við eflum líkamann samfara öðru og þjálfum samhæfinngu hugar, hjarta og handa. Að lokum viljum við setja fram þá skýru sýn okkar að það séu mannréttindi fyrir öll börn og alla einstaklinga að fá tækifæri til að tjá sig á fjölbreyttan hátt í gegnum ólíka miðla og tónlistin er eitt af þeim fyrirbærum sem hafa órjúfanleg tengsl við mennskuna og ber að rækta.