Listkennsludeild Listaháskóla Íslands hefur nú lokið við yfirferð umsókna í kennaranám fyrir vorið 2020 og sent út boð til þeirra sem fá inngöngu skólaárið 2020-2021. 
 
Á síðasta ári fjölgaði umsóknum um kennaranám í deildinni um 122% á milli ára, sem var auðvitað einstakt gleðiefni fyrir LHÍ. 
 
Fjöldi umsækjenda síðan í fyrra heldur sér og bætir enn fremur við um 12% í umsóknum á milli ára. 
 
Ákaflega ánægjulegt er að í ár sækja fjölmargir karlmenn um kennaranám í listkennsludeild, en fjöldi umsókna frá karlkyns umsækjendum nífaldaðist á milli ára
 
Mikil samstaða hefur verið milli þeirra háskóla sem bjóða upp á kennaranám, það er LHÍ, HR, HÍ og HA, sem og Mennta- og menningamálaráðuneytisins um aðgerðir til að stuðla að nýliðun í kennaranámi. Þessháttar samstaða milli háskóla og ráðuneytis skiptir gríðarmiklu máli og það sést berlega í verki hver niðurstaðan á sameinuðu átaki er.
 
Nú, eins og á síðustu árum, eru umsóknir vandaðar og fjölbreyttar og því ljóst að enn á ný kemur hæfileikaríkur hópur nýnema til með að hefja nám í listkennsludeild í haust. 
 
Til hamingju nýnemar og verið velkomin í listkennsludeild LHÍ.