Fatahönnunardeild Listaháskóla Íslands tók í vetur þátt í samstarfsverkefni og alþjóðlegri hönnunarkeppni á vegum Cristóbal Balenciaga safnsins. Tveir nemendur sem stunda nám í fatahönnun við Listaháskóla Íslands hafa verið valdir til þátttöku, en það eru þær Norea Persdotter Wallstrom og Sólveig Dóra Hafsteinsdóttir
 
Um er að ræða töluverða upphefð fyrir nemendur Listaháskólans því aðrir skólar sem taka þátt í verkefninu eru ekki af verri endanum. Skólarnir sem taka þátt eru margir meðal fremstu skóla á sviði fatahönnunar í heiminum, þar á meðal: Central Saint Martins í Lundúnum, The Royal Danish Academy of Fine Arts í Kaupmannahöfn, Shenkar College of Engineering, Design and Arts í Ísrael, Seika Kyoto University í Japan og Parsons the New School of Design í New York.
 
Tímaritið Blæti gerði þátttöku nemenda í Listaháskólanum vegleg skil og myndirnar sem fylgja fréttinni eru birtar með góðfúslegu leyfi Önnu Clausen og samstarfsfólks hennar sem eiga veg og vanda að myndunum. Það eru þau Viðar Logi, ljósmyndari, Anna Clausen sem sá um stílíseringu, Jón Guðrún Carlosson sem aðstoði á setti, Natalie Hamzehpour sem sá um förðun og hár með snyrtivörum frá MAC og Hlín, Tanja og Valerija frá Eskimo Models sátu fyrir. Forsíðumynd fréttarinnar er aftur á móti úr möppum nemenda og veita innsýn inn í ferlið sem býr að baki vinnu af þessu tagi.
 
Hér verður gripið örstutt niður í umfjöllun Ernu Bergman um leið og við óskum Noreu, Sólveigu og leiðbeinendum þeirra við fatahönnunardeild, þeim Önnu Clausen og Dainius Bendikas, innilega til hamingju með árangurinn.
 
"Tískuhúsið Balenciaga var stofnað af spænska klæðskeranum Cristóbal Balenciaga árið 1914 og á sér langa og merka sögu. Balenciaga var mikill fullkomnunarsinni og þótti framsækinn hönnuður. Hann var þekktur fyrir hreinar línur, stór form og framúrstefnulega hönnun. Er Balenciaga án efa einn áhrifamesti tískuhönnuður mannkynssögunnar og gekk fatahönnuðurinn Christian Dior svo langt að kalla starfsbróður sinn „meistara okkar allra“ enda dáðist hann mikið að framúrskarandi hæfileikum hans. Markmið verkefnisins er að miðla þekkingu, gildum, tækni og skapandi arfleifð Cristóbal Balenciaga til nýrrar kynslóðar ungra hönnuða. En einnig að fá nemendur til þess að uppgötva fagurfræði og arfleifð Balenciaga ásamt afgerandi áhrifum hans á sköpun hátískuklæðnaðar." (Tímaritið Blæti 2017, 2. tbl, 2. árg.)