10 nemendur af BA námsbraut í vöruhönnun og MA hönnun við Listaháskóla Íslands fóru til London dagana 20. – 24. maí og tóku þátt í vinnusmiðju í efnishönnun. Ásamt nemendunum fór Rúna Thors, fagstjóri námsbrautar í vöruhönnun. Við námsbraut í vöruhönnun er talsverð áhersla lögð á nýtingu og þróun efna og því rímaði vinnusmiðjan vel við þá hugmyndafræði auk þess sem gagnlegt var að sjá hvernig kennsla á þessu sviði fer fram utan landsteinanna.

Í vinnusmiðjunni unnu nemendur tilraunir með valin efni sem þeir höfðu tekið með sér að heiman. Til að mynda vann einn nemendanna með njóla, annar með brauð og sá þriðji með tyggigúmmí.
 
Auk þess að taka þátt í vinnusmiðjunni fóru nemendur og fagstjóri á Victoria & Albert Museum. Þar stendur yfir sýningin Food: Bigger than the plate en Thomas Pausz, lektor við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands sýnir verk á sýningunni. Sýningin sjálf beinir sjónum áhorfenda að tilraunum á öllum stigum matvælakerfisins, allt frá safnhaugum til framreiðslu.
 
Á meðan vinnusmiðjan stóð yfir héldu Seetal Solanki (Instagram), Fernando Laposse (Instagram), Lucy Hardcastle (Instagram) og Hazel Stark (Instagram) erindi um verk sín og áherslur í tengslum við efnishönnun. Að auki hélt Zoe Powell erindi um efnasafnið Materiom. Erindi Fernando Laposse stóð að sögn ferðalanganna upp úr: „Flest þekktum við til verka hans en hann sagði frá þeim á persónulegan og um leið grípandi hátt. Ástríða hans fyrir verkefnunum skein í gegn og áhugavert að sjá hversu djúpt hann hafði kafað í þau og nálgast frá ólíkum sjónarhornum.“ Seetal Solanki og Jennifer Cunningham voru umsjónarmenn námskeiðsins í London en þær starfa báðar hjá Ma_tt_er og var vinnusmiðjan haldin í stúdíóinu þeirra. 
 
Vinnusmiðjan var hluti af efnishönnunarkeppninni MaDe (Material Designers) sem leggur áherslu á hringrásarhagkerfið. Nánari upplýsingar um hönnunarkeppnina má finna á vefsíðu og Instagram aðgangi hennar.
 
Keppnin fer þannig fram að sex vinnusmiðjur á borð við þá sem nemendur Listaháskólans tóku þátt í fara fram í þremur ólíkum borgum: Barcelóna, Mílanó og London. 20 einstaklingar taka þátt í hverri vinnusmiðju eða 120 samtals. Að loknum vinnusmiðjunum verða 18 efnishönnuðir valdir og verk þeirra sýnd á hönnunarhátíðum borganna þriggja: Milan Design Week, Barcelona Design Week og London Design Festival. Þar að auki verða valdir þrír sigurvegarar sem fá að fylgja sinni efnishönnun í framleiðslu.
 
Ferðin var styrkt af Creative Europe á vegum Evrópusambandsins , sem sá um að greiða flug og gistingu allra þátttakenda. Rúna Thors hlaut styrk úr starfsþróunarsjóði kennara.
 
Hér fyrir neðan má sjá nemendurnar að vinnu á meðan smiðjunni stóð