NÁMSKEIÐ SEM HEFJAST Í FEBRÚAR
 
Í gegnum Opna listaháskólann geta áhugasöm sótt námskeið sem kennd eru í deildum Listaháskóla Íslands. Hægt er að taka opin námskeið með eða án ECTS háskólaeininga. Nokkuð algengt er að nemendur taki námskeið í Opna listaháskólanum með það fyrir augum að safna einingum í meistaranámi.
 
Vinsamlegast athugið að námskeið eru nú þegar tekin að fyllast og því er áhugasamt fólk hvatt til að skrá sig sem allra fyrst, til að missa ekki af.
 
Hér er hægt að kynna sér nánar öll þau fjölmörgu námskeið sem deildirnar bjóða upp á á vorönn, skráning er þegar hafin.
 
Einnig er hægt að fylgjast með fréttum um Opna LHÍ á Facebook.
 
 

Listkennsludeild LHÍ

 
 
3. febrúar- 8. maí, 2020.
 
Í námskeiðinu kynnast nemendur fjölbreyttum aðferðum og nálgunum leiklistar, sjónlista og tónlistar og hvernig þær megi nýta í kennslu. Farið er í ólíkar leiðir og sköpunarferli eftir listgreinum en einnig unnið þvert á greinar. Áhersla er lögð á listgreinarnar sem hluta fjölbreyttra kennsluhátta og aðferða til að dýpka þekkingu nemanda á viðvangsefnum. Námskeiðið er í grunninn hagnýtt en tengt helstu hugmyndum og kenningum listgreinakennslu.
 
Í lok námskeiðs ættu nemendur að geta;
 
 • beitt helstu hugtökum tengdum aðferðum í leiklistar-, myndlistar- og tónlistarkennslu í almennu námi,
 • skilið hvernig hægt er að nýta aðferðir lista í daglegu starfi innan skóla og hvaða kenningar liggja þar að baki,
 • skipulagt námskeið eða verkefni þar sem fjölbreyttum kennsluháttum byggðir á aðferðum lista er beitt,
 • þekkt helstu námsmatsleiðir og samræma kennsluháttum,
 • þróað eigin kennsluhætti og tengt við fyrri menntun.
 
Kennarar: Ingimar Ólafsson Waage, Gunndís Ýr Finnbogadóttir og gestakennarar.
 
 
 
4. - 20. febrúar, 2020
 
Námskeiðið er tilvalið fyrir þau sem vilja styrkja sig með raddbeitingu og tjáningu; listafólk, kennara og önnur.
 
Þátttakendur takast á við verkefni þar sem reynir á  raddbeitingu og framsögn. Tengsl öndunar, líkama og raddar eru könnuð með öndunaræfingum, textavinnu og spuna. Aðferðir leiklistarinnar eru notaðar til að styrkja þátttakendur sem fyrirlesara og kennara.
 
Í lok námskeiðs eiga nemendur að:
 
 • þekkja og vera meðvitaðir um veikleika og styrk sinnar eigin raddar,
 • kunna og geta nýtt sér þær öndunar- og raddæfingar sem farið er í á önninni,
 • þekkja undirstöðuatriði raddverndar og hafa færni til að stunda áframhaldandi raddþjálfun,
 • kunna skil á undirstöðuatriðum þess að koma fram fyrir fólk bæði í kennslu og fyrirlestrum,
 • gera sér grein fyrir eigin styrkleikum og veikleikum í framkomu sem fyrirlesarar/kennarar og hvernig nýta má styrk sinn og bæta upp veikleika.
 
Kennari: Þórey Sigþórsdóttir.
 
 
 
8. febrúar - 7. mars, 2020.
 
Námskeiðið hentar fyrir þau sem vilja nota möguleika Fab- Labs í skapandi starfi og/eða miðlun. Valnámskeið í meistaranámi í listkennslu.
 
Í námskeiðinu eru kynntir möguleikar til að tvinna saman skapandi nám og stafræna smiðju/Fab- Lab. Nemendur öðlast þá innsýn með vinnu á fjölbreyttum verkefnum sem endurspegla möguleika Fab- Labsins. Til þess er notaður frjáls hugbúnaður tvívíddar-og þrívíddar forrit sem eru aðgengileg í notkun. Verkefnin eru unnin í anda nýsköpunar þar sem að nemandinn mótar þau út frá eigin athugunum og þörfum.
 
Í lok námskeiðs ættu nemendur að:
 
-sjá möguleika á að tengja Fab Lab og skapandi nám,
-geta nýtt sér helstan hugbúnað sem til þarf til í Fab Lab,
-geta notað helstu tæki í Fab Lab.
 
Kennari: Soffía Margrét Magnúsdóttir.
 
Vinsamlegast athugið að þetta námskeið er fullbókað en hægt er að senda tölvupóst á olofhugrun [at] lhi.is og  óska eftir að fara á biðlista og vera látin vita, skyldi pláss á námskeiðið losna.
 
 
 
20. febrúar - 19. mars
 
Námskeiðið hentar fyrir þau sem vilja nýta leiklist í kennslu á öllum skólastigum, með áherslu á grunnskólastigið. Valnámskeið í meistaranámi í listkennslu.
 
Á námskeiðinu kynnast nemendur fjölbreyttum kennsluháttum og kennsluleiðum. Þeir kynnast kennslufræði leiklistar og tengslum hennar við nám og kennslu. Nemendur læra að beita aðferðum leiklistar þegar nálgast á viðfangsefni og fá innsýn í hvernig tengja má þær við allar listgreinar.
 
Nemendur fá verklega kennslu í aðferðum leiklistar, spreyta sig á margvíslegum verkefnum, auk þess sem þeir fá sýnikennslu í grunnskóla á því hvernig kennsluaðferðir leiklistar geta tengst námsefni. Fjallað verður um gildi og notkun leikja í skólastarfi og tengsl þeirra við nám. Nemendur kynnast lesefni innan listmenntunar þar sem fjallað er um helstu kenningar um gildi lista í námi. Að auki kynnast nemendur margvíslegum námsmatsaðferðum í leiklistarkennslu.
 
Í lok námskeiðsins eiga nemendur að:
 • geta beitt helstu hugtökum sem tengjast leiklist í kennslu,
 • þekkja til nýjustu rannsókna á sviði leiklistar í kennslu,
 • skilja hvernig hægt er að nýta leiklist í daglegu starfi innan skóla, hvaða kenningar liggja þar að baki og þekkja helstu námsmatsleiðir,
 • geta beitt aðferðum leiklistar á faglegan hátt í þeim tilgangi að nálgast markmið mismunandi námsgreina,
 • geta skipulagt fjölbreytt verkefni þar sem aðferðir leiklistar dýpka skilning og styrkja samskipti og sjálfsöryggi nemenda,
 • geta unnið sjálfstætt og skipulega að fjölbreyttum og skapandi viðfangsefnum tengdum leiklist.
 
Kennari: Ása Helga Ragnarsdóttir.
 
 

Tónlistardeild LHÍ 

 
 
18. febrúar - 12. maí 2020
 
Fyrir hver er námskeiðið: Námskeiðið fyrir þau sem hafa áhuga áð kynna sér sögu jazztónlistar.
 
Lýsing: Fjallað um þá heimssögulegu atburði sem tengdu saman evrópska og afríska menningarstauma á ókunnri strönd nýja heimsins um og fyrir aldamótin 1900. Síðan farið í gegnum jazzsöguna frá upphafi og til nútímans.
 
Megináhersla á helstu stílbrigði og áhrifamestu einstaklinga, einkum í gegnum hlustun. Tenging við þjóðfélagslega atburði eftir því sem við á á hverjum tíma. Áhersla á hlustun og tengingu spunatæknilegrar þekkingar nemenda við söguna og framvindu hennar.
 
Í lok námskeiðsins eiga nemendur að:
 
· hafa yfirsýn yfir sögu jazztónlistar,
· hafa þekkingu á ólíkum tímabilum, stíbrigðum og lykileinstaklingum sögunnar,
· geta þekkt ólík tímabil, stíbrigði og lykileinstaklinga eftir heyrn,
· geta sett tónlistina í samhengi við þjóðfélagslega atburði og almenna mannkynssögu,
· geta tjáð sig af þekkingu og innsýn um jazztónlist,
· geta rökstutt eigin skoðanir á tónlistinni.
 
Kennari: Sigurður Hjörtur Flosason.