Barnamenningarhátíð var haldin í Reykjavík dagana 9.- 14. apríl 2019. Leiðarljós hátíðarinnar eru gæði, margbreytileiki, jafnræði og gott aðgengi að menningu barna, með börnum og fyrir börn.

 
Nemendur listkennsludeildar tóku virkan þátt í hátíðinni með því að bjóða upp á fjölbreyttar smiðjur fyrir börn og aðstandendur þeirra og hér má sjá myndir frá smiðjunum. Ljósmyndari er Leifur Wilberg Orrason. 
 
 
Lundakast er kastleikur fyrir krakka, 3 til 12 ára, en líka fólk á öllum aldri og fór fram í Ráðhúsi Reykjavíkur 12.-14. apríl. Leikurinn á að auka við orðaforðra og brydda uppá nýjungum í hreyfingum og þannig rækta í leikmanni hæfni sem einungis sá sem veiðir lunda og býr með honum hefur fram að færa. Stór þáttur þessa verkefnis fer í það að eiga samtal við börn um hvað þeim finnst skemmtilegt og koma þeirra hugmyndum á framfæri. Leikurinn snýst um að létta lundina og finna í okkur lundann.
 
Lundakast er samstarfsverkefni Hönnu Jónsdóttur og Ninnu Þórarinsdóttur. Ninna útskrifaðist með MA í barnamenningarhönnun frá HDK í Gautaborg árið 2015. Hanna stundar nám í listkennslu á meistarastigi við Listaháskóla Íslands. Þær eru báðar útskrifaðir hönnuðir frá Design Academy Eindhoven.
 

 

Hreyfing/Dansað í gegnum ævintýri er fjölskyldusmiðja fyrir börn á aldrinum 3-5 ára og forráðarmenn þeirra sem haldin var í Gerðubergi 13. apríl. Þar var hægt að skyggnast inn í hugarheim ævintýranna í gegnum hreyfingu.
 
Umsjón: Guðrún Margrét A. Jóhannsdóttir, Guðrún Óskarsdóttir og Ingunn Elísabet Hreinsdóttir.