Verðlaun Félag íslenskra teiknara (FÍT) voru afhent um miðjan maí í tuttugasta sinn. Verðlaunin eru fagverðlaun sem hafa það hlutverk að beina kastljósinu að því sem þykir bera af í grafískri hönnun á Íslandi.
 
Mörkun Útskriftarhátíðar Listaháskóla Íslands 2020 hlaut gullverðlaun í flokki Menningar- og viðburðarmörkunar. Helgi Páll Melsted og Ármann Agnarsson stóðu að baki hönnunarinnar, en þetta er annað árið í röð sem þeir hljóta verðlaun fyrir mörkun Útskriftarhátíðarinnar. Í umsögn dómnefndar um hönnunina segir:
 
Nútímalegt, lifandi og áberandi einkenni fyrir viðburð sem snýst umfram allt um sköpunarkraft útskriftar­nemendanna. Með einkenninu tekst vel til að tákna breidd, kraft og fjölbreytileika nemendanna eingöngu með týpógrafíu, lit og hreyfingu. Einkenni sem þetta er einstakt að því leyti að það fær að tákna nútímann og tíðarandann án þess að skammast sín fyrir. Ein­kenninu tekst að hámarka nýtingu á mjög fáum elementum og mynda áhrifaríka heild.
 
Listaháskólinn óskar þeim Ármanni og Helga Páli innilega til hamingju með verðlaunin. Það að Útskriftarhátíð Listaháskólans hljóti gullverðlaun FÍT segir mikið til um þann metnað og þau gæði sem lagt er upp með við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar og háskólinn er gífurlega stoltur og þakklátur fyrir þessa viðurkenningu.
 
Fjöldinn allur af starfsfólki, stundakennurum og hollnemum LHÍ hlutu einnig verðlaun og viðurkenningar, við óskum þeim innilega til hamingju með frábæran árangur.
 
Hér má skoða yfirlit yfir alla vinningshafa á verðlaunum FÍT fyrir árið 2020.