Listaháskóli Íslands býður ykkur velkomin á tískusýningu annars árs nema í fatahönnun í samstarfi við Rauða kross Íslands. Rannsakaðar eru leiðir til að skapa nýjan fatnað úr ósöluhæfum flíkum með þekkingu og aðferðafræði hönnunar. Sjónum er beint að tísku á Íslandi í tengslum við sjálfbærni.

Verði engu breytt, mun núverandi neyslumenning, sér í lagi framleiðslukerfi textíliðnaðarins, verða manninum að falli. Verkefnið Misbrigði er nú unnið í annað sinn enda gekk það vonum framar síðast og ljóst að endurvinnsla mun áfram spila veigamikið hlutverk í framtíðinni. Það að draga þurfi úr framleiðslu og breyta aðferðum þarf ekki að koma niður á sköpunargleðinni. Þvert á móti munum við hafa meiri þörf fyrir sköpun og þekkingu, meira en nokkru sinni áður.

Óhófleg neyslumenning og stuttur líftími textíls gerir tísku- og textíliðnaðinn mjög óumhverfisvænan. Þessu má breyta með að glæða gömul klæði og efni nýju lífi og vinna með þau á skapandi hátt. Verkefnið Misbrigði er andsvar við vestrænni neyslumenningu og unnið í samstarfi við Rauða krossinn á Íslandi. Markmið verkefnisins er að vekja athygli nemenda á sjálfbærni. Í áfanganum ræða þeir neysluhegðun samfélagins í samhengi við viðtekin gildi, atvinnulíf og hagkerfi.

Vakin er athygli á því hvernig fatakaup eiga sér stað, hvað hefur raunverulegt gildi og hvað ekki. Möguleikar sköpunar og þekkingar eru skoðaðir í samhengi við endurvinnslu. Nemendur vinna aðeins með notuð föt og afganga við sköpun sína, ekkert nýtt er keypt.

Verkefnið Misbrigði II er tvíþætt, fyrri hlutinn er sýndur á hefðbundinni tískusýningu 16. mars en hinn seinni sem sýndur verður á HönnunarMars þar sem gestum gefst kostur á að skoða verk nemenda, kynna sér vinnuferlið og þann hvata sem lá að baki verkefninu.