Verðlaun úr Styrktarsjóði Halldórs Hansen, barnalæknis og tónlistarunnanda, voru veitt í fimmtánda sinn í gær, þann 12. júní í Salnum í Kópavogi. Verðlaunaathöfnin fór að þessu sinni fram á afmælisdegi Halldórs Hansen sem fæddist 12. júní 1927 og lést 21. júlí 2003.

Halldór ánafnaði í erfðaskrá sinni Listaháskóla Íslands gríðarstóru plötusafni sínu með um 10.000 hljómplötum ásamt öðrum veraldlegum eigum sem renna skyldu í sérstakan sjóð í hans nafni. Meginmarkmið sjóðsins er að styrkja uppbyggingu og styðja við tónlistarsafn Listaháskóla Íslands og veita árlega styrk til framúrskarandi tónlistarnema.

Að þessu sinni hlaut María Sól Ingólfsdóttir, söngkona verðlaunin en hún mun útskrifast af söngbraut Listaháskóla Íslands nú á laugardaginn. Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars:

María Sól býr yfir miklu listrænu innsæi, einstaklega blæbrigðaríkri rödd og mikilli breidd og tilfinningu fyrir mismunandi stíltegundum. Hún sýnir dirfsku í verkefnavali, hefur frumkvæði að verkefnum og verið afar virk í samstarfi við tónskáld og í flutningi nýrra verka. Hún fer sínar eigin leiðir, er sjálfri sér samkvæm og hefur mikla og sterka útgeislun á sviði. Lokatónleikar hennar frá Listaháskóla Íslands voru einstaklega vel heppnaðir, bæði hvað verkefnaval og flutning snertir. 

Að verðlaunaafhendingu lokinni flutti María Sól aríu Michaelu úr Carmen eftir Bizet og Þjóðvísu Jórunnar Viðar ásamt Bjarna Frímanni Bjarnasyni píanóleikara. 

Sú hefð hefur skapast á Tónlistardegi Halldórs Hansen að tónlistarfólk úr hópi fyrrum verðlaunahafa komi fram. Að þessu sinni var það Herdís Anna Jónasdóttir, verðlaunahafi ársins 2006, sem flutti aríur og söngljóð eftir Rameau, Schönberg og Rachmaninof. 

Að auki fjallaði Sverrir Guðjónsson, kontratenór, um kynni sín af Halldóri og vann skemmtilegt erindi sitt upp úr útvarpsþáttaröðinni Söngstjörnur í lífi Halldórs Hansen sem var frumflutt á Rás 1 árið 2002.

Listaháskóli Íslands óskar Maríu Sól Ingólfsdóttur hjartanlega til hamingju með verðlaunin. Hér má sjá yfirlit yfir fyrri verðlaunahafa.