Listfræðingurinn Halldóra Arnardóttir hélt opinn fyrirlestur, mánudaginn 13. febrúar 2017 í húsnæði listkennsludeildar í Laugarnesi.

 

„Hvaða eiginleika hefur listin sem hugsanlega gæti komið einstaklingum með Alzheimer að gagni?“

Til að svara þeirri spurningu fjallaði Halldóra um verkefnið Listir og menning sem meðferð við Alzheimer í gegnum myndlist, bókmenntir, leiklist og kökugerð. Í listum eru skynfærin notuð til að túlka og vinna með veruleikann. 

Einstaklingur með Alzheimer þarf ekki að vera listamaður til þess að skilja tjáningaformið. Fyrir hann er listin leið til að tengjast lífinu. Hún hjálpar honum að finna sjálfan sig í tengslum við aðra, við umhverfið og atburðina sem eiga stað í kringum hann. Hér mega því listir sameinast vísindum í átakinu um að bæta lífsgæði þeirra sem þjást að sjúkdómnum og aðstandenda þeirra.

Halldóra Arnardóttir er listfræðingur (BA.Hons) frá University of Essex, England, 1990. Lauk meistaraprófi í nútímabyggingarlistasögu frá Bartlett School of Architecture, UCL í London, árið 1992 og doktorsprófi árið 1999. Sjálfstætt starfandi listfræðingur á Íslandi og á Spáni, auk þess gestakennari og fyrirlesari víða í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada.

Halldóra stofnaði verkefnið Listir og menning sem meðferð við Alzheimers sjúkdómnum árið 2008 í Murcia á Spáni í samvinnu við Héraðssjúkarhúsið Virgen de la Arrixaca og hefur unnið hér á landi með Minnismóttöku Landspítalans.

Hafa listamenn á borð við Paco Torreblanca kökumeistara, Bill Viola vídeólistamann, Chelete Monereo, myndlistamaður og Þórarinn Eldjárn rithöfundur unnið í smiðjum verkefnisins. Halldóra hefur haldið fyrirlestra víða um verkefnið, m.a. í MoMA og Metropolitan of Art í New York, Carleton University í Ottowa og The National College of Art & Design, Dublin.

Helstu bókverk: Sögur húsanna / Historias de Casas (2001-2008), sjónvarpsþáttur um Manfreð Vilhjálmsson fyrir Ríkissjónvarpinu (2004), þáttaraðir í Ríkisútvarpinu um hönnun og arkitektúr (2005-2007), ‘Innanstokksmunir. Samspil húsbúnaðar og híbýla’ í Hlutavelta tímans. Menningararfur á þjóðminjasafni (2004), Manfreð Vilhjálmsson arkitekt. (með Pétri H. Ármannssyni 2009), Kristín Guðmundsdóttir híbýlafræðingur/interior designer (2015).