Í gær, 3. desember, var alþjóðadagur fatlaðs fólks og í tilefni af því voru tvenn verðlaun veitt; annars vegar Hvatingarverðlaun ÖBÍ réttindasamtaka og hins vegar Múrbrjótur Þroskahjálpar. Það vill svo skemmtilega til að bæði verðlaun féllu í skaut starfsemi sem tengist menningu og listum. 

Bíó Paradís er handhafi Hvatningarverðlauna ÖBÍ í ár og fær verðlaunin fyrir frumkvæði að aðgengi fyrir alla með sérstöku tilliti til ólíkra hópa.
Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís, tók við verðlaununum frá Guðna Th., forseta Íslands; „Eins og við vitum skiptir menning, þátttaka og samvera miklu máli fyrir samfélagið. Það er bensínið okkar og gerir okkur að þeim sem við erum. Þess vegna hefur það verið okkur svo mikið kappsmál að fá alla fjölbreytta hópa samfélagsins inn. En ávinningurinn er allur okkar megin því menningarlega auðmagnið sem við fáum inn frá því að geta boðið alla velkomna er okkar megin“ sagði Hrönn.

Listvinnzlan hlaut Múrbrjótinn nýjan skapandi vettvang á sviði inngildingar, menningar, menntunar og lista. Við Listvinnzluna starfar öflugt teymi listafólks sem hefur inngildingu að leiðarljósi og býr yfir fjölbreyttri reynslu og þekkingu. Listvinnzlan tekur að sér verkefni og ráðgjöf, styður listafólk til þátttöku í listalífi, svo sem við sýningarhald og sölu verka. Í Listvinnzlunni verður starfsrækt gallerí sem býður upp á vettvang þar sem fatlað fólk getur unnið að list sinni og fengið einstaklingsbundinn stuðning þar sem öll tilheyra og hanna hvert og eitt umgjörð um starf sitt og hafa af því atvinnu.

 

Einnig fengu þeir Sigfús Sveinbjörn og Agnar Jón Egilsson Múrbrjót fyrir heimildarleiksýninguna ,,Fúsi, aldur og fyrri störf’’.

Nú er í Borgarleikhúsinu verið að sýna heimildarleiksýningu um Sigfús;  ,,Fúsi: Aldur og fyrri störf‘‘. Þar fer Sigfús Sveinbjörn Svanbergsson, Fúsi, yfir ævi sína og valin atriði úr hans fjölbreytta lífi með aðstoð leikara og söngvara. Þetta er í fyrsta sinn á Íslandi sem leikrit er sett upp sem er um, eftir og leikið af leikara með þroskahömlun á Íslandi.

 

Í Listaháskólanum er nú allt kapp lagt á að auka aðgengi ólíkra hópa að listnámi á háskólastigi. Það skiptir máli að ólíkir hópar með ólíkan reynsluheim bæði skapi list og hafi aðgengi að list og menning í allri sinni dýrð. Verðlaunin í gær endurspegla þessa eftirspurn skýrt og veita inngildingarstefnu skólans byr undir báða vængi.