Listaháskólinn og Skálholtsskóli hafa gert með sér formlegan samning um samstarf stofnananna en þær hafa undanfarin ár átt í góðu samstarfi um tónleikahátíðina Sumartónleikar í Skálholti

Samstarfssamningurinn felur m.a. annars í sér samvinnu skólanna tveggja sem snýr að fræðslu og rannsóknum á þeirri sögu og menningu þjóðarinnar, sem órjúfanlega er tengd nafni Skálholts, með ráðstefnum, fundum, námskeiðum, útgáfu og öðru því er fellur að hlutverki stofnananna. Ennfremur felur samningurinn í sér að starfsfólki og nemendum Listaháskólans býðst afnot af aðstöðu Skálholtsskóla til fundahalda, námskeiða og ráðstefna. Þá gefst fræðimönnum á vegum Listaháskólans færi á að dvelja í Skálholti um lengri eða skemmri tíma við rannsóknarstörf.

Meðfylgjandi mynd eru frá ferð framkvæmdaráðs Listaháskólans í Skálholt þar sem Halldór Reynisson, sóknarprestur, tók á móti ráðinu og kynnti það fyrir menningararfleifð staðarins og aðstöðu og var samstarfssamningurinn undirritaður við það tilefni.