Starfshættir og geta Listaháskóla Íslands nýtur trausts til að tryggja gæði þeirra gráða sem hann veitir og til að tryggja gæði þess námsumhverfis sem nemendum er boðið.

Þetta er niðurstaða sérfræðingahóps gæðaráðs íslenskra háskóla sem framkvæmdi stofnunarúttekt á starfsemi Listaháskólans í september síðastliðnum. Yfirlýsing um traust (confidence) er besta mögulega niðurstaða sem íslenskir háskólar geta hlotið við stofnunarúttekt og er mikilvæg viðurkenning á gæðum náms við LHÍ og staðfesting á því að prófgráða frá Listaháskóla Íslands nýtur trausts á alþjóðlegum vettvangi.

Stofnunarúttektin er liður í skipulögðu og reglubundnu gæðastarfi sem allt háskólastarf á Íslandi fellur undir og hefur gæðaráð íslenskra háskóla, sem starfar fyrir ráðuneyti háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, umsjón með gæðastarfinu. Úttektin er tvíþætt, í fyrsta lagi er um að ræða sjálfsmat Listaháskólans þar sem fjallað er um alla þætti starfseminnar og þeim lýst í ítarlegri skýrslu og fylgigögnum. Vinnan við sjálfsmatið hófst í ágúst 2020 og lauk með skilum skýrslunnar og fylgigagna í júní 2021. Í öðru lagi er um að ræða ytra mat sem framkvæmt er af óháðri úttektarnefnd skipuð fjórum erlendum sérfræðingum og einum fulltrúa nemenda frá íslenskum háskóla. Nefndin hefur það hlutverk að sannreyna þá þætti sem lýst hefur verið í sjálfsmatsskýrslunni og birtast í fylgigögnum. Heimsókn nefndarinnar fór fram við lok september 2021. Á þriðja hundrað starfsfólks, nemenda og hagaðila komu að gerð sjálfsmatsins og/eða tóku þátt í fundum úttektarteymisins þar sem þau lýstu upplifun sinni af starfsemi skólans.

Eins og fyrr greinir nýtur Listaháskólinn trausts (confidence) hvoru tveggja til að tryggja gæði þeirra prófgráða sem hann veitir og til að tryggja gæði þess námsumhverfis sem nemendum er boðið. Umfjöllun sérfræðingahópsins er ítarleg og er þar bent á fjölmarga styrkleika í starfsemi Listaháskólans auk þess sem bent er á leiðir til umbóta.

Þeir styrkleikar LHÍ sem ljósi er varpað á er sterk óformleg gæðamenning, stofnanamenning með áherslu á stöðugt umbótastarf sem hafi m.a. birst í snörpum viðbrögðum við heimsfaraldri Covid-19, sameiginleg sýn stjórnenda á gagnsemi nýs stjórnskipulags og mikil virkni skólans í samfélaginu. Þá er fjallað lofsamlega um nemendur og að þeir hafi veitt góðar umsagnir um kennslu við skólann. Þeir séu sterkir talsmenn Listaháskólans sem sýni hvert öðru samstöðu og á meðal þeirra hafi sér í lagi birst skýr stuðningur íslenskra nemenda við alþjóðlega samnemendur sína. Fram kemur að gott aðgengi LHÍ að sérfræðingum með ólíkan bakgrunn auðgi námsupplifun nemenda og að þeir njóti trausts fagaðila sem telji þá vel undirbúna fyrir störf á fagvettvangi að útskrift lokinni. Þá er bent á styrkleika í starfsemi skólans sem birtast í samvinnu starfsfólks og nemenda í námsferlinu, starfsanda sem einkennist af þrautseigju og vilja til að búa nemendum gott námsumhverfi, og jákvæða og samstíga stoðþjónustu. Fjallað er um metnaðarfulla rannsóknaráætlun Listaháskólans sem miði að því að styðja við blómlegt rannsóknarstarf og að viðhalda góðum fræðilegum starfsháttum. Þá nefnir úttektarnefndin ennfremur að vinna skólans við gerð sjálfsmatsskýrslunnar hafi verið vel útfærð.

Þær umbætur sem lagðar eru til eru úrlausn annmarka á aðstöðu til kennslu í sumum rýmum skólans, þörf fyrir skilvirkari áætlun um innri samskipti til að ná fram sameiginlegum skilningi á framtíðarsýn og liðka fyrir breytingum, öflugri miðlun til stúdenta um umbætur á námsleiðum og í stoðþjónustu og að tækifæri sé til að efla tengsl stjórnar LHÍ við fulltrúa stúdenta. Þá er lagt til að þróuð verði samræmd áætlun um námsmat og endurgjöf og að útbúin verði sameiginleg stundaskrá fyrir allan skólann til að fjölga tækifærum til þverfaglegs náms. Í niðurstöðum er jafnframt hvatt til áframhaldandi þróunar á rannsóknarstefnu og til öflunar gagna um samfélagslega virkni. Þá er lögð til skoðun á fyrirkomulagi tímabundinna ráðninga til að styðja við sjálfbæra rannsóknarmenningu, að gagnsæi framgangsferla verði aukið og sérfræðiþekking matsaðila tryggð auk þess sem að lagt er til að stuðningur og tengsl við stundakennara verði efld. Þá er einnig horft til jafnréttissjónarmiða í tillögum að umbótaverkefnum og lagt til að eftirfylgni við málstefnu verði aukin, að mótuð verði aðgerðaáætlun í jafnréttismálum með áherslu á að koma í veg fyrir staðalmyndir og að MeToo byltingunni verði veitt áframhaldandi eftirfylgni. 

Listaháskólinn mun fylgja niðurstöðum úttektarinnar eftir með umbótaáætlun til gæðaráðs og vinna sem fyrr að umbótamiðuðu og stöðugu gæðastarfi í öflugum háskóla.

Skýrsla erlenda sérfræðiteymisins í heild sinni á ensku.
Samantekt á niðurstöðum á íslensku.
Frétt gæðaráðs íslenskra háskóla um úttektina. 
Frétt háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðuneytis um úttektina.