Í lok október varði starfsfólk Listaháskólans tveimur dögum í stefnumótunarvinnu í Tollhúsinu, framtíðarhúsnæði skólans. Í upphafi vinnunar voru nokkrir útvaldir starfsmenn með örerendi eða kveikjur, hver með sitt viðfangsefni. Nína Hjálmarsdóttir, lektor og fagstjóri fræða við sviðslistadeild, talaði um Listaháskóli framtíðarinnar og fjölbreytni.

"Ég var 8 ára þegar Listaháskólinn var stofnaður af ástríðufullum listamönnum, og meðal þeirra var pabbi minn sem varð svo fyrsti rektor skólans. Þannig ég er í þeirri einstöku stöðu að hafa alist upp með skólanum, og seinna sem nemandi og svo núna sem kennari. Að heyra sögur pabba við matarborðið um hvað nemendur skólans væru að gera, tilraunamennskan og eldmóðurinn, og það hvernig þau pönkuðust jafnvel á móti stofnuninni sjálfri sem þau námu við,- þetta voru mótandi sögur fyrir mig. Grunnurinn í hugmyndafræði Listaháskólans var og er leiða saman suðupott af ólíku fólki til að búa til spennu og árekstra þar sem tekist er á um hugmyndir, til að sköpunarkrafturinn fái að blómstra. Ég sá þetta sem barn og ég skildi að það sem nemendur og starfsmenn skólans voru að gera, var að hafa bein áhrif á umhverfið, að listrænu áhrifin voru að seytla inn í samfélagið. Listaháskólinn var ekki að spegla þjóðina, hann var að móta þjóðina. 

Af hverju gerum við list? Ég get bara svarað fyrir sjálfa mig að listin er það sem gerir lífið spennandi, þetta úmph. Hið listræna, það sem stendur utan tungumálsins, utan skilningsins, snýr á röngunni, hinsegir raunveruleikann. Þetta sem gerir okkur kleift að sjá svipleiftur inn í eitthvað annað, leyfir okkur að dreyma um annan heim þar sem hægt er að anda léttar. Listin er mitt trúarbragð. 

En hvað kemur þetta fjölbreytileika við? Við búum í landi þar sem 25% landsmanna eru af fyrstu eða annarri kynslóð innflytjenda, og þar sem um 15% eru fötluð. Við sjáum hvernig nýjar kynslóðir spyrja sig núna hver þau eru og hvað þeim finnst gott, utan kynjatvíhyggjunnar og heterónormatívunnar. En við sjáum þetta ekki í Listaháskólanum í dag, hvorki meðal nemenda né starfsfólks. Við vitum af hverju það er mikilvægt fyrir fólk af minnihlutahópum að fá aðgang að listnámi, við vitum svona félagslega séð af hverju það er mikilvægt fyrir þau og dýrmætt fyrir samfélagið. En mig langar að við spyrjum okkur hér í dag, af hverju er það mikilvægt fyrir listina? 

Nú tala ég út frá samhengi sviðslistanna en það má yfirfæra á allar listgreinar. Útgangpunktur vestrænna sviðslista hefur alltaf verið að listin eigi að endurspegla samfélagið. Raunsæið sviðsetur raunveruleikann. Jafnvel þegar sviðslistin er í uppreisn þá er hún í uppreisn út frá miðjunni, að gagnrýna miðjuna. Sviðslistin endurspeglar samfélagið svo sannarlega, raunveruleika hins hvíta ófatlaða gagnkynhneigða og sískynja. Áhorfendur samsama sig með þessum raunveruleika, og þannig er samfélaginu og viðmiðum þess viðhaldið.

Á Hugarfluginu okkar árið 2022 spurði key-note gesturinn hún Sonya Lindfors hvað myndi gerast ef að Listaháskólinn myndi ákveða að kenna bara texta og listaverk eftir jaðarsett fólk? Prófa að kenna ekkert annað í einn vetur? Þetta er kannski smá skerí tillaga fyrir okkur sem vorum menntuð í þessu vestræna karllæga sjónarhorni. En það er líka hægt að sjá spurninguna í öðru ljósi,- hvað ef að við höldum bara áfram að staðfesta einn takmarkaðan veruleika? Hvað kemur fyrir listina? Hvað kemur fyrir Listaháskólann?

Það að markvisst vinna að því að rétta hlut þeirra sem hafa verið kerfislega og sögulega útskúfuð frá listmenntun er ekki bara fyrir þau, eða fyrir jafnréttisparadísina Ísland. Það er beinlínis listrænt mikilvægt. Nú erum við komin að þeim punkti í sögunni þar sem jaðarsettir hópar krefjast þess að fá sæti við borðið. Þessir jaðarsettu hópar eru ekki að fara neitt, og þeir verða bara háværari og háværari. 

Ég held að við öll sem erum hérna í dag getum verið sammála um að listirnar eigi að staðsetja sig í hringiðu samfélagsins, spretta úr henni og móta hana. Listin á að vera þar sem krítísku spurninganna er spurt, róttæknin og grasrótin hreyfir við fólkinu, og lífið fyllist af fegurð og tilgangi. Og ef hringiða samfélagsins er komin á þann stað að jaðarsettir hópar krefjast þess að sjást í speglinum eða jafnvel að spegillinn sé mölbrotinn, þá þarf listin og hið listræna að vera þar líka. Æðsta menntastofnun landsins í listum þarf að vera þar, og við þurfum að vera frumkvöðlar í verkefninu. Ef Listaháskólinn á að vera suðupottur, þar sem hið ólíka á milli okkar verður jarðvegurinn fyrir sköpunarkraftinn, þá verður fjölbreytileikinn að vera í fyrirrúmi. Og við sem stjórnum Listaháskólanum í dag, þurfum að finna okkar leið núna 23 árum seinna, til að skapa þennan suðupott. Því að breytingin er hafin og ef við erum ekki með, þá heltumst við úr lestinni, og verðum irrelevant, hættum að skipta máli. Ef einhver getur búið þann skóla til, þá ættu það að vera við, listafólk, sem vinnum við að gera drauma að veruleika. Takk fyrir."