Linda Björg Árnadóttir, textílhönnuður og lektor í fatahönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands verður fulltrúi Íslands á sýningunni Design Venice 2018 sem fram fer samhliða Feneyjartvíæringnum í arkitektúr, en sú hátíð fer ætíð fram það ár sem Feneyjartvíæringurinn í myndlist hvílir.
 
Linda mun sýna textíl og umhverfisgrafík í brútalískum stíl, en eins og margir þekkja þá náði brútalískur arkitektúr mikilli útbreiðslu á árinum 1950-1970. Hugtakið brútalismi er rakið m.a. til franska arkitektsins Le Corbusier sem leyfði gjarnan hrárri steypu, bêton brut, að vera í forgrunni í byggingum sínum. Brútalisminn byggist  á notkun hrárra  byggingarefna: múrsteina, glers, stáls, grófhöggvins steins o.fl. Arkitektúrinn dregur þannig fram eiginleika efnanna í stað þess að hylja og meðhöndla þau.
 
Hvað varðar inntak hönnunarinnar á sýningunni segir Linda að það verði „mikilvægt fyrir mig að sýna framsækna grafík og munstur auk þass að sýna mikla þekkingu á textíl framleiðslu og tækni.“ “Vonandi skapast hefð fyrir því að íslendingar taki þátt,” segir Linda og bætir við: „Það vantar erlendan vettvang fyrir íslenska hönnuði til að sýna hönnun án þess að það sé einhverskonar sölusýning.“
 
Í tengslum við sýninguna mun Linda gefa út bók og prenta plaköt í takmörkuðu upplagi. „Ég veit á þessu stigi ekkert hvar þetta endar,“ segir hún og á við sýninguna sjálfa. “Ég ætla að breyta og bæta fram á síðustu mögulegu stundu,“ bætir hún við.
 
Það verður spennandi að fylgjast með þróun sýningarinnar og við óskum Lindu alls hins besta í þessari spennandi vegferð. Á starfsmannasíðu LHÍ má nálgast meiri upplýsingar um Lindu.
 
picture-15724-1510847114.jpg
Linda Björg Árnadóttir er lektor við fatahönnunarbraut LHÍ.