Listaháskólanum hlotnaðist á dögunum sá heiður að taka við umsjón Verðlaunasjóðs Sigurðar Guðmundssonar arkitekts og hlaut Davíð Snær Sveinsson 500.000 kr. fyrir lokaverkefni sitt á útskrift Listaháskólans 16. júní s.l. en hann er í hópi fyrstu nemenda sem útskrifast með M.Arch fullnaðarpróf í arkitektúr á Íslandi.
„Það er okkur mikill heiður að fá að halda á lofti nafni Sigurðar Guðmundssonar og viljum við vanda okkur við umgjörð þessa verkefnis. Við viljum koma af stað árlegu málþingi í nafni Sigurðar þar sem við sjáum fyrir okkur að fjalla um verk hans sem og framúrskarandi verkefni samtímans, sem sæma þeim frumkvöðli sem hann var. Við sjáum fyrir okkur þegar fram í sækir að efla sjóðinn og viðhalda honum í góðu samstarfi við fagsamfélagið hér á landi.“ segir Eva María Árnadóttir sviðsforseti arkitektúrs, hönnunar og myndlistar við tilefnið.
Guðrún Jónsdóttir arkitekt var sú fyrsta til að hljóta verðlaun úr sjóðnum árið 1976 en þá voru þau veitt að undangenginni samkeppni. Tillaga hennar hét „Þáttur Þingholta í þróun vaxandi borgar.“ Hægt er að lesa frétt um verðlaunin hér.
Um Sigurð Guðmundsson, arkitekt
Sigurður Guðmundsson var tengiliðurinn milli ólíkra viðhorfa í íslenskri húsagerðarlist á fyrri helmingi síðustu aldar. Hann var í senn síðasti fulltrúi hinnar klassísku hefðar og frumkvöðull nýrrar húsagerðarlistar í anda modernisma. Sigurður var annar í röð þeirra Íslendinga sem fyrstir nutu háskólamenntunar í byggingalist, næstur á eftir frumherjanum Guðjóni Samúelssyni. Sigurður, sem var fyrstur til að hefja rekstur sjálfstæðrar teiknistofu hér á landi, er líklegast þekktastur fyrir mannvirki á borð við Austurbæjarskóla, Hafnarhúsið, Ljósafossvirkjun og Apótekið í Austurstræti.