Verkefnastjóri Háskóladagsins 2024
Anywhere/ Remote - Hlutastarf
Umsóknarfrestur: 20.10.2023
 
Háskólarnir í landinu – Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands – leita að sjálfstæðum verkefnastjóra til að starfa um 5 mánaða skeið í um það bil 30% hlutastarfi fyrir Háskóladaginn 2024, sem haldinn verður laugardaginn 2. mars.
Viðkomandi mun fá mikinn stuðning frá aðstandendum dagsins og fullan aðgang að vinnugögnum fyrri verkefnastjóra Háskóladagsins. Viðkomandi þarf að sjá um eigin vinnuaðstöðu. Um er að ræða fjölbreytt, líflegt og skemmtilegt verkefni á sviði markaðsmála, samskipta og viðburðahalds.
 
Starfslýsing
 • Halda utan um framkvæmd Háskóladagsins, í umboði fulltrúa háskólanna og samkvæmt samþykktum áætlunum þeirra.
 • Sjá um samskipti við fulltrúa allra háskólanna.
 • Stýra viðhaldi á vefnum www.haskoladagurinn.is og hafa umsjón með honum.
 • Hafa umsjón með Facebook-síðu og samfélagsmiðlum háskóladagsins.
 • Halda utan um fjárhagsáætlun og alla kostnaðarliði vegna sameiginlegrar framkvæmdar háskóladagsins og gæta þess að kostnaður fari ekki fram úr samþykktri kostnaðaráætlun.
 • Boða fundi fulltrúa háskólanna, setja niður dagskrá funda í samráði við þá og rita fundargerð.
 • Útbúa birtingaráætlun í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum vegna háskóladagsins í Reykjavík og á Akureyri, auk landsbyggðarinnar, og leggja fyrir fulltrúa háskólanna til samþykkis.
 • Fylgja eftir samþykktri birtingar- og almannatengslaáætlun, þ.m.t. að fylgja eftir framleiðslu auglýsinga og annars markaðsefnis í samráði við auglýsingastofu og grafískan hönnuð.
 • Hafa samskipti við forsvarsmenn og nemendafélög framhaldsskóla landsins og sjá til þess að háskóladagurinn sé kynntur á þeim vettvangi.
 • Sjá um samskipti við fjölmiðla og almannatengsl vegna Háskóladagsins.
 • Skrásetja verkferla og verkliði háskóladagsins og skila fulltrúum háskólanna skýrslu með niðurstöðu að verkefninu loknu í apríl 2023.
 
Hæfniskröfur
 • Reynsla og þekking á verkefnastjórnun í markaðsmálum.
 • Færni og reynsla í umsjón með framleiðslu auglýsinga, markaðsherferða og birtingaáætlana.
 • Grunnþekking á umsýslutólum Google, Meta/Facebook/Instagram, Linkedin og Twitter.
 • Innsýn í veröld efnismarkaðssetningar (content/storytelling marketing).
 • Reynsla af samskiptum við fjölmiðla og þverfaglegum samskiptum eins og milli menntastofnana.
 • Jákvætt viðmót, samskiptahæfni og þjónustulund.
 • Háskólamenntun sem nýtist í starfi.

  Nánari upplýsingar
  Frekari upplýsingar um starfið veita Kristín Ása Einarsdóttir hjá Háskóla Íslands kristei [at] hi.is, Silja Jóhannesar Ástudóttir hjá Háskólanum á Akureyri silja [at] unak.is, Katrín Rut Bessadóttir hjá Háskólanum í Reykjavík katrinrb [at] ru.is og Rósa Björk Jónsdóttir hjá Landbúnaðarháskóla Íslands rosabjork [at] lbhi.is

 

Umsóknum með kynningarbréfi og ferilsskrá skal skilað rafrænt á ráðningarvef 50 Skills ekki síðar en 15. október 2023. Fyrirspurnir og umsóknir eru trúnaðarmál. Starfið er laust nú þegar.