Stórsöngvarar úr ýmsum áttum setja mark sitt á gullfallegan lagalista Kristins Sigmundssonar, gestaprófessors í söng við tónlistardeild LHÍ,  sem tók að sér að velja saman brot af uppáhaldstónlistinni sinni í Kveikju vikunnar.

Margaret Price, Dietrich Fischer Dieskau, Kiri te Kanawa, Jussi Björling og Fritz Wunderlich túlka aríur og ljóðasöngva Schuberts, Schumanns, Berlioz og fleiri; hér er sungið um Álfakonunga, Adelaide og ástir skáldsins og við heyrum aríur úr óperum eftir Wagner, Mozart og úr Fidelio, einu óperu Beethovens. 

Ferðalagið hefst með flutningi Monteverdi-kórsins á mótettunni Fürchte dich nicht, BWV 228 eftir Johann Sebastian Bach og síðan taka kveikjur Kristins Sigmundssonar við, ein af annarri. Njótið vel.

 

Kveikja er vikulegur lagalisti tónlistardeildar LHÍ, valinn af fjölbreyttum kennarahópi deildarinnar. Hér má nálgast eldri lista.