Kristín Valsdóttir hefur verið ráðin deildarforseti listkennsludeildar Listaháskóla Íslands. 

kristin_valsdottir.png
 
Kristín lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2019 með doktorsrannsókn á lærdómsferli listkennara, er með M.Ed.-gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum frá Kennaraháskóla Íslands, Diploma als Musik- und Bewegung Ershier frá Orff Institut í Salzburg og B.Ed.-gráðu með áherslu á tónmennt frá Kennaraháskóla Íslands. Hún hefur stýrt Rannsóknarstofu í listkennslufræðum við LHÍ frá stofnun og hefur miðlað verkum sínum opinberlega á fagvettvangi innanlands og erlendis.  
 
Kristín hefur viðamikla, alhliða kennslureynslu á háskólastigi og spannar kennsluferill hennar þrjá áratugi. Hún hefur gegnt stöðu deildarforseta listkennsludeildar og fagstjóra tónlistarkennslu frá 2009 og átti stóran þátt í að byggja upp meistaranám í kennslufræði fyrir listamenn við Listaháskóla Íslands. Var stundakennari við LHÍ frá 2004, aðjúnkt við Kennaraháskólann/Menntavísindasvið Háskóla Íslands frá 2003 til 2009, stundakennari við Kennaraháskólann frá 1992 og umsjónarkennari í tónlist við Leiklistarskóla Íslands, fyrirrennara sviðslistadeildar LHÍ, frá 1997 til 2003. Þá kenndi hún við tónmenntakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík og við ýmsa grunnskóla. Kristín er leiðandi afl í listkennslu í landinu. 
 
Sem deildarforseti og fagstjóri hefur Kristín setið í fjölda nefnda og komið að ótal þróunar- og stjórnunarverkefnum innan LHÍ. Hún hefur jafnframt gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Menntavísindasvið Háskóla Íslands/Kennaraháskólann og fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Hún var formaður Tónmenntakennarafélags Íslands 2002 til 2004 og sat þar áður í stjórn félagsins frá 1996. 
 
Kristín er mjög virk í erlendu samstarfi og leiðir um þessar mundir t.a.m. þróunarverkefni að námslínu fyrir listamenn á meistarastigi með áherslu á vinnu með jaðarhópum, í samstarfi við sjö erlenda aðila. 
Kristínu eru færðar hamingju- og heillaóskir með stöðuna.