Kristín Valsdóttir er deildarforseti og fagstjóri tónlistarkennslu í listkennsludeild Listaháskóla Íslands. 

 
Kristín Valsdóttir var í rannsóknarleyfi frá september til desember 2017 og var viðfangsefnið í rannsóknarleyfinu að leggja lokahönd á doktorsverkefni hennar sem ber heitið: Learning journeys of becoming arts educators -A practice-led biographical research.
 
Um er að ræða rannsókn til doktorsgráðu frá Háskóla Íslands sem Kristín vann að undanfarin sjö ár samfara vinnu sinni sem deildarforseti. 
 

Lífssaga listamanna

 
„Þessi rannsókn fjallar um nám og námsferli þeirra listamanna sem bæta við sig kennaranámi við listkennsludeild Listaháskóla Íslands,“ segir Kristín en vettvangur rannsóknarinnar var annarsvegar lífssaga listamannanna, þeirra fyrri reynsla og menntun og hins vegar uppbygging náms við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. 
 
„Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á þær áskoranir sem mæta nemendum er koma inn á nýjan vettvang og hefja nám í kennslufræðum á meistarastigi, oft eftir nokkurra ára feril sem starfandi listamenn. Markmið hennar er að þróa áfram meistaranám fyrir listmenn og koma betur á móts við þarfir þeirra í meistaranáminu, byggt á þeirra fyrri reynslu og menntun.“
 
Fræðilegur grunnur byggir á kenningum Bourdieus (Bourdieu, 1977, 1984) um praxís, samspil einstaklings og vettvangs, tengt auðmagni og gildismati þeirra hópa sem þeir eru þátttakendur í. 
 

Grunduð kenning 

 
„Í rannsókninni er kannað hvað listamenn sem hefja nám í kennslufræðum á meistarastigi takast á við er þeir fara á milli vettvanga; annars vegar út frá lífssögum þeirra og reynslu og þróun sjálfsmyndar þeirra en einnig þátttöku þeirra í námsmenningu í listkennslunáminu, hvernig þeir hafa áhrif á hana og móta,“ segir Kristín.
 
„Rannsóknaraðferðinni sem beitt var er grunduð kenning þar sem lagt var upp með opna spurningu um hvernig listamenn tileinka sér það að verða listkennarar. Nemendahópur á fyrsta ári í listkennsludeild haustið 2012 samþykkti þátttöku og skilaði til rannsakanda dagbókum einu sinni í viku með hugleiðingum sínum um námið og hvað þeir voru að takast á við á sinni fyrstu námsönn. Niðurstöður dagbókanna lögðu grunninn að viðtalsramma, en tekin voru ítarleg lífsöguviðtöl við 15 listamenn, þar af 12 sem höfðu lokið meistaranámi og útskrifast sem listkennarar frá Listkennsludeild. Þrír viðmælendur eru starfandi listamenn og voru þeir valdir til að varpa betra ljósi á vettvang listheimsins.“
 
Með þessum ólíku aðferðum fékkst betri heildarmynd af því ferli sem listamaðurinn fer í gegnum og hvernig hann mótast sem listkennari út frá eigin lífssögu, þátttöku í listheiminum og síðar sem nemandi á nýjum vettvangi sem meistaranemi í kennslufræðum. 
 

Takast á við eigin tilfinningar 

 
„Niðurstöður sýna að hjá þátttakendum eiga nokkur átök sér stað sem tengjast því að fara á milli vettvanga. Þeir mæta oft neikvæðu viðhorfi úr samfélaginu gagnvart kennaramenntun og kennarastarfinu, ekki síst frá eigin listvettvangi. Þeir þurfa að takast á við eigin tilfinningar og taka skýra afstöðu til eigin langana og skerpa á grunnvilja sínum til þess að takast á við þessar breytingar. Á sama tíma takast þeir á við nýtt námsumhverfi með öðrum námsvenjum og kröfum en þeir hafa vanist. Það ferðalag reynist mörgum erfitt í byrjun en eflir þá þegar líður á námið og þeir ná tökum á nýjum og fræðilegri vinnubrögðum.
 

Ný sjálfsmynd

 
„Meginniðurstöður eru þær að sú vegferð að tileinka sé nýja sjálfsmynd sem listkennari meðfram því að vera listamaður krefst tíma. Lenging kennaranáms hefur því töluvert að segja. Tíminn er þó aðeins einn þáttur í mótuninni þar sem námsmenning kennaranáms er sá vettvangur sem mótar það hvernig tíminn er nýttur,“ segir Kristín og bætir við að námsmenning, sem leggur áherslu á ígrundun, samtal og samvinnu samfara fjölbreyttum vinnubrögðum og því að líta til fyrri reynslu og menntunar nemenda í skipulagi, leggur grunninn að því að listamenn tileinki sér nýjan vettvang og nýja sjálfsmynd sem listkennarar.
 
„Gildi rannsóknarinnar felst fyrst og fremst í því að varpa ljósi á þær ögranir sem listamenn standa frammi fyrir er þeir hefja kennaranám á meistarastigi. Niðurstöður hennar má nýta við þróun og uppbyggingu frekara náms á meistara- og doktorsstigi fyrir listamenn á Íslandi og niðurstöðurnar geta nýst til að skoða og greina uppbyggingu kennaranáms á Íslandi.“