Kristín Þorkelsdóttir

 

Kristín Þorkelsdóttir grafískur hönnuður heldur hátíðarræðu á útskrift Listaháskóla Íslands 2021. 

 
Kristínu Þorkelsdóttur má sannarlega kalla brautryðjanda á sviði grafískrar hönnunar hérlendis en hún á að baki langan og aðdáunarverðan feril. Kristín hefur hannað umbúðir um matvæli, auglýsingar, bókakápur og þjóðþekkt merki sem mörg hafa verið notuð í yfir fimmtíu ár. Það verk Kristínar sem hvað flestir þekkja mun líklegast vera íslensku peningaseðlarnir sem hún hannaði ásamt hönnuðinum Stephen Fairbairn. 
 
Kristín fæddist árið 1936 í Reykjavík. Hún ætlaði sér að verða myndlistarmaður og stundaði nám við fyrirrennara Listaháskóla Íslands, Handíða- og myndlistarskólann. Þaðan útskrifaðist hún 18 ára gömul árið 1955. Eftir útskrift fór hún að vinna fyrir sér sem grafískur hönnuður og árið 1967 setti hún á laggirnar auglýsingastofu sem átti eftir að verða ein af stærstu auglýsingastofum landsins, AUK hf. Stofan starfaði frá 1967 til ársins 1994. 
 
Nú stendur yfir sýning á Hönnunarsafni Íslands þar sem brot af ævistarfi Kristínar er rakið í máli og myndum, en eftir hana liggja ógrynnin öll af skissum, teikningum, tilraunum og pælingum og er þetta í fyrsta sinn sem því er gert skil með sýningu. Sýningarstjórar eru Arnar Freyr Guðmundsson, Birna Geirfinnsdóttir og Bryndís Björgvinsdóttir, en Birna og Bryndís vinna jafnframt að útgáfu bókar um feril og verk Kristínar Þorkelsdóttur. 
_mg_7922.jpeg