Kristín Dóra Ólafsdóttir, sjónlistakona og listgreinakennari, hlaut viðurkenningu skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar fyrir framúrskarandi meistaraverkefni sitt en hún útskrifaðist vorið 2019 frá listkennsludeild Listaháskóla Íslands. 
 
Kristín Dóra er ein af tíu meistaranemum í kennslu- og menntunarfræðum sem fengu viðurkenningu skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar fyrir framúrskarandi lokaverkefni þann 29. október 2019.
 
Í verkefninu, Essið: Ræktun jákvæðrar sjálfsmyndar á umrótatímum, segir Kristín Dóra frá þeim leiðum sem hún beitti í sértæku hópastarfi í félagsmiðstöð í Reykjavík til að vinna með uppbyggingu sjálfstrausts hjá stelpum í 10. bekk. Hópurinn heitir Essið og var starfræktur á vorönn 2019 undir stjórn Kristínar Dóru og Brynju Helgadóttur, tómstunda- og félagsmálafræðings.
 
Hér má lesa meira um meistaraverkefni hennar en Kristín Dóra hlaut einnig hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs síðastliðið vor fyrir sama verkefni. 
 
 
 
Alexandra Briem varaformaður skóla- og frístundaráðs og Skúli Helgason formaður afhentu meistaranemunum viðurkenningu. Athöfnin fór fram í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi. Halldóra Ósk Helgadóttir sópransöngkona og Hrönn Þráinsdóttir fluttu tónlist. Meistaranemarnir tíu sem fengu viðurkenningu skóla- og frístundaráðs með formanni ráðsins og varaformanni.
 
Markmið þessara viðurkenninga er að auka hagnýtingu rannsókna í fagstarfi með börnum og unglingum í borginni og gera Reykjavík að vettvangi rannsókna, náms og starfs. Öll voru lokaverkefnin sem hlutu viðurkenningu unnin á tímabilinu 1. júní 2018 - 31. maí 2019.  Viðurkenningarverðlaunin fyrir hvert og eitt þeirra nema 250.000 kr.
 
Eftirtaldir meistaranemar fengu viðurkennningu;
1) Eyrún Ólafsdóttir fyrir verkefnið Byrjendalæsi sem brú milli táknmáls og íslensks ritmáls: Reynsla döff kennara. 
2) Guðlaug Bjarnadóttir fyrir verkefnið „Þú getur sýnt fram á hæfni þína á ótrúlega mismunandi vegu“: Samþætting námsgreina í unglingadeild í einum skóla.
3) Halla Leifsdóttir fyrir verkefnið Í hlekkjum huglása: Starfendarannsókn á samþættingu núvitundarástundunar og nýsköpunarmenntar.
4) Hildur Lilja Guðmundsdóttir fyrir verkefnið Í kanínuholunni beið nýr raunveruleiki: Þróun vaxtarhugarfars í skólastarfi.
5) Hörður Arnarson fyrir verkefnið „Þurfum við endilega að hætta núna?“: Prófun og endurhönnun hlutverkaspilsins „Teningasögur“.
6) Kristín Dóra Ólafsdóttir fyrir verkefnið Essið: Ræktun jákvæðrar sjálfsmyndar á umrótatímum.
7) Ingunn Heiða Kjartansdóttir fyrir verkefnið „Skipulag í óskipulaginu“: Líðan barna í leikskóla sem styðst við hugmyndir um flæði: Hver er reynsla foreldra?
8) Sólveig Björg Pálsdóttir fyrir verkefnið „Þetta er kannski alltaf svona á bak við eyrað“: Kynjajafnréttismenntun elstu barna í sex leikskólum.
9) Sunneva Svavarsdóttir fyrir verkefnið Yngstu börnin og upplýsingatækni.
10) Valdís Ingimarsdóttir fyrir verkefnið „Ég finn bara hálfan skó!“: Hvaða stærðfærði eru börn á leikskólaaldri að fást við?
 
kristin_dora_verdlaun-_mynd.jpg
Verðlaunahafar ásamt leiðbeinendum sínum- mynd af vef Reykjavíkurborgar

 

Auglýst var eftir umsóknum vegna viðurkenninganna og bárust alls 26 umsóknir. Valnefnd, skipuð sérfræðingum í starfi leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs fór yfir umsóknir og valdi verkefnin tíu. Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, afhenti meistaranemunum tíu viðurkenningarnar og fór athöfnin fram í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar.
 
Þetta er í annað sinn sem skóla- og frístundaráð veitir viðurkenningu fyrir meistaraverkefni í leikskólakennara-, grunnskólakennara- og tómstundafræðum sem unnin eru á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík. Verðlaunaverkefnin verða í kjölfarið kynnt fyrir starfsfólki skóla- og frístundasviðs, eftir því sem við á, með það að markmiði að efni þeirra nýtist sem best í fagstarfinu.
 
kristin_dora_mynd.jpg
Kristín Dóra ásamt Fróða, syni sínum.

 

Listkennsludeild og Listaháskólinn óskar Kristínu Dóru hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna.