Árið 2015 auglýsti Erasmus+ áætlunin nýja styrki til þess að mynda tengsl við háskóla utan Evrópu. Í þessari áætlun er áhersla lögð á svæði þar sem fjármagn til háskóla er af skornum skammti þar sem lítil tengsl eru til staðar við vestræna háskóla, sem og lönd sem tilheyra hagkerfum heimsins sem eru sífellt stækkandi, s.s. Kína, Indland og Mexíkó. Listaháskólinn hefur síðastliðin tvö ár verið virkur þátttakandi í þessari nýju styrkjaáætlun og m.a. sent kennara til og fengið heimsóknir frá háskólum á Indlandi, Mexíkó, Ísrael, Kína, Georgíu, Serbíu og Kasakstan, en einnig er samstarf við háskóla í Bangladesh og Líbanon í undirbúningi.

Í byrjun nóvember sl. heimsóttu Katrín María Káradóttir, fagstjóri í fatahönnun og Hildur Yeoman fatahönnuður og kennar við skólann, T.K. Zhurgenov Kazak National Academy of Arts í Almaty, Kasakstan. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynnast starfsfólki og nemendum skólans, ásamt námsfyrirkomulagi og aðstöðu, en einnig að kynnast atvinnugreininni, starfsemi og markaði fatahönnunar í Kasakstan. Starfsfólk skólans tók vel á móti gestunum, kynntu þær fyrir sögu skólans, þróun námsbrautarinnar í fatahönnun og kennsluhætti. Þær fengu að heimsækja nemendur í vinnustofur og kennslutíma, og fengu sýningu á verkum nemenda og kennara. Einnig var saga og hefð þjóðbúninga kynnt fyrir þeim. Að lokum fóru þær í hinar ýmsu vettvangsferðir á vinnustofur þar sem nemendur stunda starfsnám, ásamt því að skoða búðir og vinnustofur starfandi fatahönnuða í Almaty.

Þessi hluti Erasmus+ áætlunarinnar styrkti fjóra erlenda nemendur til þess að stunda skiptinám við LHÍ haustið 2016. Þetta voru tveir nemendur í myndlist frá ENPEG La Esmeralda skólanum í Mexíkó og tveir nemendur í hönnun frá Bezalel Academy of Arts and Design í Ísrael.

Mynd með frétt: Katrín María Káradóttir.