Karna Sigurðardóttir, meistaranemi í listkennsludeild LHÍ, lærði iðnhönnun í Wellington í Nýja Sjálandi. 
 
„Ég fór út í byrjun árs 2006 og útskrifaðist þremur árum síðar frá Victoria University of Wellington, School of Design. Í náminu lagði ég áherslu á dramatúrgíu og samband mannslíkamans við hlutina kringum okkur. Það má eiginlega segja að ég hafi stigið út úr iðnhönnunarfaginu áður en ég steig inn í það, en útskriftarverkefnið mitt var sviðsverk.“
 
Áður en Karna lauk náminu tók hún að sér kennslu við skólann og hélt því áfram í eina önn eftir útskrift. „Þegar ég svo ákvað að kveðja Nýja Sjáland árið 2009 var mjög ánægjulegt að fá að prófa að kenna við Listaháskóla Íslands í framhaldinu. Ég hef verið stundakennari við hönnunardeildina síðan og það hefur verið mjög gefandi og skemmtilegt að fá tækifæri til að sinna því meðfram öðru. Eftir að ég lauk náminu gaf ég flökkueðli mínu lausan tauminn þar sem ég vann að sjálfstæðum verkefnum ýmiskonar út um víða veröld.
 
Karna vann við verkefnastjórn, kennslu, hönnun, ljósmyndun, stefnumótun og gerð kynningarmyndbanda, sem færðist með tímanum nær og nær heimildamyndagerð. „Þrátt fyrir að hafa ekki sinnt hönnun að neinu marki sjálf hef ég verið listrænn stjórnandi hönnunarverkefna. Eitt þeirra, Designs from Nowhere hlaut íslensku hönnunarverðlaunin árið 2014, í fyrsta sinn sem þau voru veitt. 
 
 
Flökkuorkan fann sér nýjan farveg
 
Árið 2015 eignaðist Karna son og svo dóttur ári síðar svo flökkuorkan fann sér nýjan farveg í að fylgja börnunum á sinni vegferð.  „Árin 2017-2019 var ég í fyrsta skipti á ævinni í einhverju sem stundum er kallað „venjuleg vinna“. Mér fannst þessi vinna reyndar ekkert sérstaklega venjuleg. Árið 2017 var ég ráðin til þess að leiða stofnun Menningarstofu Fjarðarbyggðar í kjölfar þess að sveitarfélagið hafði í fyrsta skipti sett sér menningarstefnu. Ég varð því fyrsti forstöðumaður Menningarstofunnar og verkefni mitt var að koma  þessari skútu á flot“, segir hún og bætir við: „Þetta var sannarlega lærdómsríkt og gefandi—og stundum erfitt.“
 
 
Barnamenning í forgrunni
 
Hún ákvað strax að leggja áherslu á barnamenningu og menningaruppeldi til að leggja sterkan grunn að menningarlæsi hjá framtíðarfrömuðunum. „Það var ótrúlegt að finna meðbyrinn og samstöðuna um þetta verkefni, og á aðeins tveimur árum stofnsetti Menningarstofa smiðjudaga í grunnskólum með kynningu á ýmsum listgreinum, þróunarverkefni um eflingu tónlistar í leikskólum, skapandi sumarsmiðjur fyrir börn, skapandi fræðslu í vinnuskóla, skapandi sumarstörf fyrir ungmenni og læddi skapandi smiðjum inn í ýmsa viðburði og starfsemi sem fyrir var, t.a.m. á vegum félagsmiðstöðva.  
  
Á þessum tíma var að aukast mjög umræða um barnamenningu og árið 2017 sótti Karna ráðstefnuna Menningarlandið sem Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt á Dalvík og var það árið tileinkað barnamenningu. „Í framhaldinu fóru boltar að rúlla og settur var á fót fámennur starfshópur um barnamenningu á Austurlandi. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að sitja í þessum hópi og haustið 2018 sprakk út í höndunum á okkur verkefni sem ég er mjög stolt af, BRAS - Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi. Hátíðin hefur heldur betur fest sig í sessi og sett mark sitt á viðhorf og tækifæri ungra Austfirðinga.“  
  
Þegar Karna lauk störfum hjá Fjarðabyggð gat hún ómögulega slitið hugann frá barnamenningu og málefnum sem varða jafnt aðgengi barna að menningu og listum. Í kjölfarið kviknaði áhuginn á að skilja skólakerfið betur og öðlast reynslu og þekkingu á kennslufræðum.  
  
 
Dýrmæt reynsla
 
Meðan ég starfaði hjá Menningarstofu framkvæmdi ég verkefnin að miklu leyti sjálf og þróaði verkefnin á gólfinu eins og mér var unnt í virku samtali við samstarfsfólk innan og utan stjórnkerfisins, menningarstjórnendur, listkennara, skólastjórnendur, börn og foreldra. Ég fylgdist grannt með gangi mála og tók að mér kennslu og aðstoðarkennslu þar sem með þurfti. Þetta var dýrmæt reynsla, en ég var meðvituð um reynsluleysi mitt þegar kom að kennslu og kennslufræðum og því ákvað ég að sækja um nám við Listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Því hef ég ekki séð eftir eitt augnablik og námið hefur hjálpað mér verulega að ramma inn og skilja betur þær hugmyndir og tilraunir sem ég vann með í starfi mínu sem menningarfulltrúi í Fjarðabyggð.“  
  
„Námið við listkennsludeildina hentar mér mjög vel,“ segir meistaraneminn og heldur áfram. „Þar er einvalalið stjórnenda og kennara sem styður mjög við bakið á nemendum. Mér finnst áhersla lögð á að hver og einn njóti sín, en nemendur koma úr ólíkum listgreinum og sumir hafa mikla kennslureynslu á meðan aðrir hafa litla sem enga. Ég hef upplifað deildina þannig að markmið hennar sé að hver og einn finni sínar eigin leiðir til að verða besta útgáfanum af kennaranum í sjálfum sér.“
 
Þegar fyrsta samkomubannið vegna covid skall á var Karna á miðri fyrstu önninni sinni. „Það var í fyrstu dálítið áfall að komast minna inn í skólana en upphaflega var ráðgert og hafa minna samneyti við samnemendur og kennara. Með tímanum hefur það jafnast út og ég hugsa lítið um það núna. Við höfum þjálfast í notkun á fjarfundarbúnaði og þurft að finna skapandi lausnir á hinum ýmsu málum, og átt gagnrýna og lausnamiðaða umræðu um allskonar málefni þessu tengt. Það verður áhugavert að líta til baka á þennan tíma, en eins og er reyni ég að láta þetta hafa lítil áhrif á mig og einbeiti mér að því að undirbúa verkefnin framundan, námsefnisgerð í sumar og svo auðvitað lokaverkefnið mitt sem stendur til að klára á næstu önn.“  
 
 
Íþróttalist
  
Karna er ein af þeim nemendum sem hlaut styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna á vordögum. „Það var mikið ánægjuefni að hljóta styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til námsefnissmíði. Námsefnið byggir á smiðju sem ég stýrði í Fjarðabyggð árið 2018 og fjallaði um líkamlegt atgervi og listsköpun“ útskýrir Karna en hún segist hafa verið orðin ansi þreytt á samræðum sem snérust um að stilla íþróttum og listum upp sem andstæðum, og jafnvel andstæðingum. 
 
„Það var þá sem ég bjó til smiðju fyrir unglinga í Fjarðabyggð sem hét Íþróttalist. Mig langaði að sýna börnunum fram á að íþróttir og listir geti vel farið saman, jafnvel runnið saman í eitt og þyrftu alls ekki að útiloka hvort annað. Mig langaði að mynda hugrenningatengsl milli þessara heima sem samfélagið hefur oftar en ekki málað upp sem andstæður. Ég hafði enga reynslu af því að kenna unglingum og var heldur smeyk við þessa djúpu laug sem ég hafði ákveðið að stíga út í, án kúta. Úr varð þessi líka skemmtilega smiðja, ungmennin komu mér sannarlega á óvart og voru áhugasamari en ég þorði að vona. Ég sé frekari tækifæri í þessari samsuðu sem liggur á mörkum íþrótta og lista, gjörningalista og nýsirkus, og því ákvað ég að láta á það reyna að þróa námsefni sem byggði á þessari þverfaglegu tilraun.“  
  
 
Aðgengi að listfræðslu
  
Karna stefnir að útskrift frá listkennsludeild næstu áramót. „Lokaverkefnið mitt snýst um jafnt aðgengi barna að listfræðslu og leiðum til að þræða listfræðslu saman við nám og tómstundir barna á sem fjölbreyttastan hátt. En verkefnið snýst líka um aðgengi listfræðslu að börnum, og hvernig við nálgumst stærri og fjölbreyttari hóp barna með listfræðslunni sem er í boði. Íþróttalist kemur þar við sögu, enda sýndi íþróttalistasmiðjan í Fjarðabyggð fram á að gegnum íþróttirnar getum við nálgast hóp sem samsamar sig ekki með listum, eða telur sig ekki gera það.“  
 
 
Sirkus í skóla  
  
Á síðustu smiðjudögunum sem Karna stýrði hjá Menningarstofu Fjarðabyggðar bauð hún sirkuslistamönnum að kenna framhald á íþróttalistasmiðjunni umræddu og sú viðkynning hefur verið heldur betur afdrifarík. „Síðan hef ég dregist lengra og lengra inn í alls kyns sirkusverkefni, sem tengjast ýmist kennslu, hönnun eða bara almennri nýsirkuslist. Í vettvangsnáminu mínu í Laugarnesskóla kynntist ég sirkuskennaranum Kötlu Þórarinsdóttur, en Laugarnesskóli er eini skólinn á landinu sem er með sirkus í stundatöflu fyrir alla nemendur,“ segir Karna en hún heillaðist mjög af kennsluaðferðum Kötlu og telur mikil tækifæri felast í því að innleiða sirkus og sirkusaðferðir inn í nám og tómstundir barna.  
  
Í sumar mun ég fylgja sirkuslistahópnum Hringleik kringum landið með sýninguna þeirra Allra veðra von. Þau bjóða upp á námskeið í tenglsum við sýninguna og ég fæ að vera á hliðarlínni og sækja í þeirra yfirgripsmiklu reynslu við gerð námsefnisins í íþróttalist. Það er alltaf eitthvað áhugavert framundan, ég reyni allavega að stilla hlutunum þannig upp,“ segir hún. 
  
Hjartað slær í heimildarmyndunum
 
Karna segist upplifa sig fyrst og fremst sem heimildamyndahöfund. „Það er þar sem hjarta mitt slær. Ég gekk til liðs við framkvæmdateymi Skjaldborgar—hátíð íslenskra heimildamynda á síðasta ári og sit einnig í stjórn Skjaldborgar og Íslensku kvikmynda- og sjónvarspakademíunnar. Það hentar mér mjög vel þegar vinnan er ofin úr marglitum þráðum og getur leitt mig í óvæntar aðstæður. Ég vonast til að geta þrætt kennslu og þróun listfræðsluverkefna ferkar inn í vefnaðinn minn þegar ég hef lokið námi. 

 

Íþróttalistasmiðja á Eskifirði / Fáskrúðsfirði (merkt á myndum) 2018 undir stjórn Körnu Sigurðardóttur. Myndir Sebastian Zielger fyrir Menningarstofu Fjarðabyggðar. 

 

Teiknimyndasmiðja Kuldabola - viðburði á vegum félagsmiðstöðva í Fjarðabyggð - 2018. Myndir Karna fyrir Menningarstofu Fjarðabyggðar. 

 

bras-sebastian_ziegler.jpg
 

Hið margrómaða krítargólf BRAS á Egilsstöðum 2019. Mynd Sebastian Zielger fyrir Menningarstofu Fjarðabyggðar. 

 

 

maximusmargret_bras2019-sebastian-ziegler.jpg
 

Maximús og Margrét eftir tónleika sem Hallfríður Ólafsdóttir stýrði á BRAS 2019. Mynd Sebastian Zielger fyrir Menningarstofu Fjarðabyggðar. 

 

 

hapunkturbras_2019-sebastian-ziegler.jpg
 

Karna kveðjur Menningarstofu á hápunkti BRAS 2019. Mynd Sebastian Zielger fyrir Menningarstofu Fjarðabyggðar.