LHÍ-kórinn hélt á dögunum tónleika í Háteigskirkju í tilefni af fyrirhugaðri Englandsferð kórsins síðar í mánuðinum en tónleikarnir voru haldnir í fjáröflunarskyni fyrir ferðina. Tónleikar kórsins í London verða haldnir í City, University of London, þar sem flutt verða verk undir yfirskriftinni Öfl ástar og náttúru (Forces of Love and Nature).  Þar verða flutt norræn tónverk úr ýmsum áttum, þar á meðal eftir tvo meðlimi kórsins, þau Katrínu Helgu Ólafsdóttur og Pétur Eggertsson en í verki þess síðarnefnda mun Lilja María Ásmundsdóttir, í mastersnámi við City og fyrrum tónlistarnemi við LHÍ, koma fram og leika á hljóðfæri sitt Hulduna ásamt kórnum. 

Á efnisskrá í Háteigskirkju voru íslensk og norræn kórverk einnig í öndvegi. Þjóðlagaútsetningar Hafliða Hallgrímssonar, Peace I Leave With You eftir Knut Nysted, Ubi Caritas eftir Ola Gjeilo, Kvöldvers eftir Tryggva M. Baldvinsson, Dýr fæðingin drottins vors eftir Huga Guðmundsson, Maríukvæði og Heyr himnasmiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Barnagælur eftir Jórunni Viðar, Ektamakinn elskulegi eftir Tryggva M. Baldvinsson, Sem dökkur logi (Madrigaletto II) og Við svala lind (Madrigaletto I) eftir Atla Heimi Sveinsson, Hjá lygnri móðu eftir Jón Ásgeirsson og Haldiðún Gróa hafi skó eftir Gunnar Reyni Sveinsson. 

Stjórnandi LHÍ-kórsins er Sigurður Halldórsson. Meðfylgjandi er upptaka af tónleikunum sem fram fóru í Háteigskirkju 7. febrúar síðastliðinn. Njótið vel.
Ljósmynd af kórnum: Sólfrún Ylfa Ingimarsdóttir.