Á nýrri sýningu, Heimurinn sem brot úr heild, sem opnuð var í Listasafni Árnesinga laugardaginn 28. september, eru sýnd verk eftir listamennina Önnu Jóa og Gústav Geir Bollason sem sýningarstjórinn Jóhannes Dagsson hefur valið saman. Jóhannes er menntaður bæði í myndlist og heimspeki og starfar við myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

Útgangspunktur sýningarinnar er teikningin, en Jóhannes hefur einnig valið inn málverk, vídeó verk og skúlptúra sem tengjast þeim hugmyndum sem sýningin byggir á. Í texta sýningarstjóra um sýninguna segir m.a.: „Hér eru vísbendingar um heima sem eru persónulegir, heima sem innihalda aðrar athafnir en þær sem við erum vön að lifa, heima sem eru liðnir, heima sem hafa ekki ennþá hafist. Brotin eru skynjanleg og í gegnum skynjun okkar á þeim verður til aðgengi, brotakennd leið. Þetta eru ekki heimar búnir til úr hugtökum eða óhlutbundnum forskriftum eða formúlum, heldur höfum við hér tækifæri til að reyna á eigin skinni, í gegnum skynjun og veru, drög að heimi.“

Anna og Gústav Geir eiga það sameiginlegt að hafa bæði stundað framhaldsnám í Frakklandi að loknu námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hafa bæði lagt sitt af mörkum til að koma myndlist annarra á framfæri. Anna stofnaði og rak um tíma Gallerí Skugga í Reykjavík en hefur einnig verið listgagnrýnandi og stundakennari í listfræði. Gústav Geir er einn af stofnendum listrýmisins Verksmiðjunnar á Hjalteyri og rekur hana í dag. En í Listasafni Árnesinga eru það þeirra verk sem eru til skoðunar. Þau hafa bæði átt verk á fjölmörgum sýningum, einka- sem samsýningum, innanlands og erlendis, en listaverk þeirra hafa ekki áður verið sett saman í sýningu. Verk þeirra eru afar ólík, en með því að stilla þeim saman skapast óvæntar aðstæður og forvitnileg sjónarhorn veita innsýn í áhugaverða heima til túlkunar.

Það eru allir velkomnir á opnun og aðgangur að safninu er ókeypis. Sýningin mun standa til 15. desember.