Jóhannes Dagsson er lektor í myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

 
Jóhannes er heimspekingur og myndlistarmaður. Hann lauk doktorsprófi í heimspeki frá University of Calgary árið 2012. 
 
Rannsóknarsvið Jóhannesar liggur á mörkum hugspeki, málspeki og fagurfræði. Í rannsóknum sínum fæst hann við spurningar um merkingu og skynjun í samhengi listaverksins. Þessar rannsóknir nýtir Jóhannes í kennslu, fræðilegri útgáfu og í myndlist sinni.
 

Afrakstur rannsóknarleyfis

Jóhannes var í rannsóknarleyfi á haustönn 2018 og er afrakstur leyfisins handrit að tveimur greinum, sem bera vinnutitlana Creativity, knowledge and perception og Listening while moving. 
 
Fyrri hluti rannsóknarleyfisins var helgaður lestri og kortlagningu á því fræðilega samhengi sem verkefnið er staðsett í. Í þeirri kortlagningu lagði Jóhannes sérstaka áherslu á að kortleggja skrif og kenningar er lúta að vitsmunaáhrifum á skynjun (e. cognitive penetration of perception). 
 
„Þessum hluta vinnunnar var að mestu lokið í byrjun nóvember 2018. Næsta skref í vinnuferlinu voru skrif byggð á þessari rannsóknarvinnu. Fyrsti þáttur í því var fyrirlestur sem ég flutti um efnið á degi heimspekinnar þann 15. nóvember, í boði Heimspekistofnunar Háskóla Íslands.“ 
 

Úrvinnsla og framhaldið

Fyrirlesturinn bar yfirskriftina: Ásetningur og þekking í skapandi ferli og í honum fjallaði Jóhannes um hluta af því viðfangsefni sem eru til umfjöllunar í greininni Creativity, knowledge and perception.
 
Seinni hluta rannsóknarleyfisins varði Jóhannes í að setja saman handrit að tveimur greinum sem byggja á þessum rannsóknum. „Upprunalega var markmiðið að vinna handrit að tveimur nokkuð hefðbundnum textum, en vegna ákveðinna breytinga í aðferðafræðinni sem ég var að beyta, ákvað ég að önnur greinin yrði nokkuð hefðbundin, en hin greinin er nokkuð tilraunakenndari.“ 
 

Skilningur á sköpunarferlinu

Viðfangsefni verkefnisins var að beita aðferðafræði heimspekinnar til þess að greina og skýra ákveðna þætti skapandi athafna og þess samhengis sem þær eiga sér stað í. 
 
„Markmiðið með greiningu sem þessari er að auka skilning og þekkingu á sköpunarferlinu en jafnframt hefur aukin þekking á þessu sviði áhrif á mögulegar túlkanir á listaverkum, sem og á túlkanir á ásetningi höfunda í samhengi listrænna athafna og listaverka“, segir Jóhannes.
 
„Skapandi athöfn er oft best skilin sem athöfn sem byggir á og býr til þekkingu. Sú þekking sem um ræðir er oft þekking á fyrirbærum sem ekki geta talað fyrir sig sjálf. Hvernig er best að gera grein fyrir samspili ásetnings höfundar, merkingu listaverksins og þeirri þekkingu sem það byggir á, vísar til og/eða miðlar? Þetta viðfangsefni á sér snertifleti við hugmyndir okkar um hlutverk ásetnings, þekkingar og færni höfundar í gerð og túlkun listaverks, en það snertir einnig að ég held, spurningar um verufræði listaverksins, hvernig við umgöngumst það sem fyrirbæri, og hversu trúverðugt og áhugavert það er, eða getur verið.“ 
 

Mismunandi tegundir þekkingar 

Í verkefninu var meðal annars stuðst við hugmyndir Michael Polanyi um þögla þekkingu (e. tacit knowledge) og þær notaðar sem fyrirmynd að því hvernig þekkingarhugtakið er skilgreint. Það var einnig hluti af verkefninu að greina og skýra þetta hugtak og notkun á því betur. 
 
„Þekkingarhugtakið er hér skilið mjög vítt, þannig að það getur náð yfir óyrðanleg fyrirbæri eða fyrirbæri sem aðeins er hægt að miðla í gegnum ákveðnar efnislegar framsetningar, svo sem í gegnum listaverk. Það er má eignilega segja að eitt af því sem útaf standi, sé að skoða betur samband þekkingar, og þess sem það er þekking á, í samhengi listaversins, eða skapandi athafnar, kannski verður það hluti af næsta rannsóknarleyfi.“ 

Ásetningur og innihald skynjunar

Í rannsóknarverkefni Jóhannesar var megin rannsóknarspurningin þessi: „Hvernig er best að gera grein fyrir samspili ásetnings höfundar, merkingu listaverksins og þeirri þekkingu sem það byggir á, vísar til og/eða miðlar?“  
 
„Mikil gróska hefur verið í umfjöllun að undanförnu um skapandi athafnir, og það hvernig við eignum þeim merkingu útfrá svipuðum forsendum og liggja að baki þessu rannsóknarverkefni. Hér mætti nefna Alva Noe, Dustin Stokes, David Davies, Barbara Montero og Schellekens,“ segir Jóhannes og heldur áfram. „Í stærra hugmyndafræðilegu samhengi má segja að þessar nálganir einkennist af tilraunum heimspekinga til að sameina fyrirbærafræðilegar skýringar og greiningar á fyrirbærum eins og ásetningi og innihaldi skynjunar annarsvegar og hinsvegar hugfræðilegar (e. congnitive) rannsóknir og niðurstöður þeirra.“ 
 
Afrakstur af rannsóknarleyfinu eru handrit að tveimur greinum, eins og fram hefur komið.
 
„Í báðum tilfellum er um að ræða langt komin handrit, eftir á að vinna nokkuð í þeim áður en til birtingar kemur,“ segir Jóhannes. „Önnur greinin er ætluð til birtingar á ritrýndum vettvangi og er áætlað að hún verði tilbúin í ritrýni með vorinu, hin sem er tilraunakenndari atlaga að sama viðfangsefni, verður stofninn í opnum fyrirlestri í Myndlistardeild á vorönn ´19 og eftir það er ætlunin að ganga frá henni til útgáfu.“ 
 
johannesdagsson1.jpeg