Íslenskir hönnuðir taka þátt í farandssýningunni Nordic Now á vegum Adorno.
Síðastliðna helgi, 31. ágúst – 2. september, stóð vefgalleríið Adorno fyrir sýningunni Nordic Now í Kaupmannahöfn sem hluti af Chart Design hátíðinni. Á sýningunni voru verk eftir íslenska vöruhönnuði, meðal annars kennara og fyrrverandi nemendur Listaháskóla Íslands.
 
Adorno, einstakur vettvangur fyrir hönnuði og áhugafólk um hönnun
Vefgalleríið Adorno var stofnað árið 2017 af þeim Kristian Snorre Andersen og Martin Clausen, þeir hafa mikla ástríðu fyrir hönnun og eru frumkvöðlar á sviði tækni og forritunar. Þeir vildu með Adorno skapa tækifæri fyrir hönnuði víðsvegar að úr heiminum til að kynna verk sín fyrir alþjóðlegum markaði og gera áhugafólki um hönnun kleift að uppgötva og eignast einstaka hönnun framleidda í takmörkuðu upplagi. 
 
Galleríið dregur nafn sitt af þýska heimspekingnum Theodor Adorno sem stóð í þeirri trú að fjöldaframleiðsla á menningu ógnaði fegurð og sérstöðu listarinnar og hann gagnrýndi jafnframt hina einsleitu fagurfræði menningariðnaðarins.
 
 
Nordic Now
Síðastliðna helgi, 31. ágúst – 2. September, stóð vefgalleríið Adorno fyrir sýningunni Nordic Now í Kaupmannahöfn sem hluti af Chart Design hátíðinni. Á sýningunni voru verk eftir íslenska, sænska, finnska, danska og norska hönnuði og frá hverju landi var sýningstjóri sem valdi hönnuði inn á sýninguna. Sýningarstjórarnir fyrir hönd Íslands voru Hlín Helga Guðlaugsdóttir og María Kristín Jónsdóttir en á sýningunni eiga verk þau Tinna Gunnarsdóttir prófessor í vöruhönnun og Garðar Eyjólfsson fagstjóri meistaranáms í hönnun við Listaháskóla Íslands
 
Einstök hönnun á mörkum myndlistar, hönnunar og handverks
Í fréttatilkynningu sýningarinnar segir að með samstarfi sýningarstjóra frá þátttökulöndunum eigi að setja fram einstaka hönnun frá nýjum sem og reynslumiklum hönnuðum er vinna á mörkum myndlistar, hönnunar og handverks. Með því að setja upp bæði stafræna sýningu á vefnum og raunverulega í sýningarrými reynir verkefnið að kynna norræna samtímahönnun fyrir alþjóðlegum áhorfendahóp og rannsakar hvort séreinkenni norrænnar hönnunar séu enn við lýði í hinu hnattvædda samfélagi nútímans. Áætlað er að sýningin ferðist víðsvegar um heiminn á næstu mánuðum en næsti viðkomustaður er Dubai, þá Suður-Afríka og síðasti áfangastaðurinn verður New York.
 
Til að fylgjast með Nordic Now er hægt að heimsækja vefsíðu sýningarinnar hér: https://www.nownordic.com
 
Vefsíðu Adorno má finna hér: https://adorno.design 

Instagram aðgangur Adorno heitir adorno.design