JARÐSETNING
íslensk heimildamynd um endalok og nýtt upphaf í manngerðu umhverfi frumsýnd á RIFF

Laugardaginn 2. október kl. 17 verður heimildamyndin Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur lektor við arkitektúrdeild og arkitekt frumsýnd í Bíó Paradís.
 
Með aðalhlutverk í myndinni fer stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu, sem rís á sjöunda áratugnum í anda alþjóðlegra framtíðarhugmynda. Steinsteypt hús á fimm hæðum með kjallara. Byggt eftir teikningum Halldórs H. Jónssonar arkitekts. Rúmlega hálfri öld síðar er byggingin dæmd til að víkja, mæta afli vélarinnar og kröftum náttúrunnar.
 
Í heimildamyndinni Jarðsetning er niðurrif byggingarinnar og örlög byggingarefnanna rakin. Áhorfendur verða við vitni að upplausn forma og efna með daglegt líf borgarinnar í bakgrunni. Fylgst er með hvernig hrein og einföld form byggingarinnar afmyndast, hvernig burður í sverum súlum og þykkum gólfplötum gefur eftir. Á vinnusvæðinu er byggingarefni flokkað í litaðar stálkistur og flutt burt á urðunarstaði. Þetta er jarðsetning. Endalok framtíðarbyggingar á endastöð hugmynda um einnota byggingar. Framtíðin heilsar um leið og hún kveður.
 
Upptökur af niðurrifinu fóru fram á árunum 2017-2018, en árið 2007 voru opinberaðar hugmyndir um að í framtíðinni skyldi byggingin verða hótel. Ári síðar samþykkti borgarstjórn breytingu á skipulagi
og heimild til niðurrifs byggingarinnar. Byggingin þjónaði sem banki fram til ársins 2015 og vék í kjölfarið fyrir nýrri hótelbyggingu. Hún hvílir nú að mestu á urðunarstöðum á höfuðborgarsvæðinu.
 
Jarðsetning er fyrsta mynd Önnu Maríu Bogadóttur arkitekts. Hún er hluti af stærra verkefni hennar á sviði  framsækinnar byggingarvarðveislu sem varpar ljósi á endalok og nýtt upphaf í manngerðu umhverfi. Verkefni sem finnur sér farveg gegnum heimildamynd, sýningar og bók sem er væntanleg á næsta ári. Myndin er framleidd af Úrbanistan með stuðningi Hönnunarsjóðs Íslands og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins.
 
Kvikmyndin verður sýnd á eftirfarandi tímum:
Frumsýning laugardaginn 2. október klukkan 17:00 í Bíó Paradís + Q&A
Sunnudaginn 3. október klukkan 13:30 í Norræna húsinu 
Föstudaginn 8. október klukkan 14:00 í Bíó Paradís
 
Miða má nálgast á www.riff.is
 
Aðstandendur myndarinnar Jarðsetning heimildamynd eftir Önnu Maríu Bogadóttur:
leikstjóri: Anna María Bogadóttir
kvikmyndataka: Logi Hilmarsson
klipping: Sighvatur Ómar Kristinsson
hljóð og tónlist: Bergur Þórisson
framleiðandi: Anna María Bogadóttir
framleiðslufyrirtæki: Úrbanistan
lengd: 50 mín
alþjóðlegur titill: Interment
 
Anna María Bogadóttir, lektor við arkitektúrdeild, arkitekt og menningarfræðingur, leggur áherslu á menningar- og félagslegar hliðar hins byggða umhverfis og nálgast arkitektúr frá sjónarhóli dagslegs lífs í samhengi flókinna kerfa og hvata. Verk hennar finna sér farveg á hefðbundum og óhefðbundum vettvöngum arkitektúrs, ritlistar og sjónlista. Anna María er stofnandi og eigandi Úrbanistan, sem starfar breitt á sviði arkitektúrs gegnum hönnunar-, varðveislu- og skipulagsverkefni auk þess að stunda útgáfu, sýninga- og kvikmyndagerð er snýr að eðli og umbreytingu hins manngerða umhverfis. Anna er löggiltur mannvirkjahönnuður, skipulagsráðgjafi og lektor í arkitektúr við Listaháskóla Íslands. Hún lauk meistaraprófi í arkitektúr frá Columbia Háskóla í New York árið 2010 en hafði áður starfað í um áratug við menningar- og sýningarstjórn á Íslandi og Danmörku og lokið meistaraprófum í upplýsingatækni og menningarfræði í Danmörku.