Í dag var tilkynnt um handhafa verðlauna úr Minningarsjóði Kristjáns Eldjárns sem er að þessu sinni Ingibjörg Elsa Turchi en Ingibjörg stundar nám í tónsmíðum og rytmískri söng- og hljóðfærakennslu við tónlistardeild LHÍ.

Ingibjörg hefur verið afar áberandi í íslenskri tónlistarsenu á undanförnum árum. Hún hefur komið fram við ótal tækifæri í listarýminu Mengi við Óðinsgötu, sent frá sér sólóplötuna Wood/work, hefur spilað með hljómsveitum og tónlistarmönnum á borð við Boogie Trouble, Babies, Teiti Magnússyni, Bubba Morthens, Stuðmönnum Soffíu Björg, Ylju og Borealisbandinu. Ingibjörg er einn stofnenda og umsjónarkvenna Stelpur Rokka! á Íslandi þar sem hún sinnir kennslu og umsjón.

Þetta er í tíunda skiptið sem úthlutað er úr Minningarsjóði Kristjáns Eldjárns sem var stofnaður af ættingjum, vinum og samstarfsmönnum gítarleikarans Kristjáns Eldjárns eftir að hann lést árið 2002, tæplega þrítugur að aldri eftir erfið veikindi. Honum er ætlað að verðlauna efnilega tónlistarmenn og afreksfólk í tónlist. Meðal fyrri verðlaunahafa eru Páll Ragnar Pálsson, Sunna Gunnlaugsdóttir, Daníel Bjarnason og Skúli Sverrisson.

Listaháskóli Íslands óskar Ingibjörgu Elsu hjartanlega til hamingju með verðlaunin.