Listaháskólinn var settur á óhefðbundinn hátt annað árið í röð sökum heimsfaraldursins mánudaginn 23. ágúst. 
Einungis nýnemum var boðið á skólasetninguna og var þeim skipt upp í hópa eftir deildum. 
 
Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor skólans bauð nýnemana velkomna, ávarpaði samkomuna og setti skólann í 22. sinn.
Fríða á skólasetnignu 2021.jpg
 

Hefð er fyrir því að hollnemar skólans ávarpi samkomuna og í ár voru það Sólbjört Vera Ómarsdóttir (myndlist 2020) og Ólafur Ásgeirsson (leikarabraut 2015). 

Hér má sjá ávarpið þeirra.

 
Hér má lesa ávarp Fríðu Bjarkar, rektors í heild sinni.
 
Kæru nýnemar!
 
I
Verið þið öll hjartanlega velkomin í Listaháskóla Íslands. Í háskóla sem hefur það hlutverk helst að virkja ímyndunaraflið og sköpunargáfuna sem best. Það er okkar hlutverk að byggja sterkan grunn undir ykkar faglegu framtíð, en einnig að gera ykkur fært að brjóta niður múra þegar þess er þörf. Það er okkar, sem hér störfum að víkka sjóndeildarhring ykkar, efla skilning, hugrekki og getu til að takast á við þær áskoranir sem ykkar bíða að námi loknu, hvert svo sem leiðir ykkar munu liggja.  
 
Í margvíslegum skilningi er Listaháskólinn stofnun sem lýtur sömu lögmálum og allar aðrar stofnanir þjóðfélagsins. Við vinnum innan tiltekins ramma og lútum lögum og reglum sem okkur eru settar eða við setjum okkur sjálf. 
 
Það má vel halda því fram að slíkar stofnanir eigi ekki mikla samleið með þroska ímyndunaraflsins. En í mínum huga er það einmitt öfugt. Fyrir tilstilli stofnunarinnar er hægt að búa til stöðugan farveg fyrir okkur öll sem hér vinnum og nemum. Sá stöðugi farvegur þjónar einungis því hlutverki að skapa tryggt flæði fyrir þær hugmyndir og aðferðir sem framsæknastar eru hverju sinni. Í slíkum farvegi er að sönnu borin virðing fyrir hefðum fortíðar, en sjálfur hverfipunkturinn er í samtímanum og jafnvel framtíðinni. 
 
Þið - nemendur okkar - staldrið hér við í einhver ár og svo koma aðrir og fylla ykkar skarð. Það sama á við um starfsfólkið, það staldrar hér við í áratug eða svo þar til aðrir taka við. Með þessu stöðuga straumi inn og út tapast hugsanlega eitthvað í tímans rás, en á móti kemur allt það svigrúm sem skapast fyrir þá sem á eftir koma til að taka þátt, þroskast, viðra ný sjónarhorn og færa svo þegar þeirra tími kemur sína þekkingu og reynslu með sér á nýjan vettvang, með annarskonar mörk og mæri. Með þessum hætti stækkar áhrifasvið Listaháskólans með hverju árinu sem líður víðs vegar í samfélaginu, bæði hér og erlendis.
 
II
Ímyndunaraflið er í raun eina verkfærið sem við þurfum til að halda þessum farvegi við. Þeir sem hér starfa hverju sinni móta skólann, innihald menntunarinnar og þeirra markmiða sem við setjum okkur. 
 
Þið sem nú hefjið nám eruð ekki hvað síst mikilvæg í þeirri vinnu, því enginn þekkir ykkar þarfir betur en þið sjálf. Mig langar því til að nota þetta tækifæri á ykkar fyrsta degi í Listaháskólanum til að hvetja ykkur til að láta að ykkur kveða, taka þátt í starfi stúdentaráðsins, bjóða ykkur fram í nefndir á ráð og síðast en ekki síst sækja viðburði þvert á deildir og brautir eftir því sem ykkur er unnt og heimsfaraldurinn leyfir. 
 
Tækifærið til að taka þátt í þverfaglegu samtali, njóta hugljómunar allra listgreina og ímyndunarafls samferðafólks ykkar er sannarlega mikilvægt og kemur að öllum líkindum aldrei aftur með svo auðveldum hætti inn í ykkar starf á lífsleiðinni. 
 
II
Fyrir tveimur vikum bárust okkur hér við Listaháskólann þau langþráðu tíðindi að stjórnvöld hefðu ákveðið að byggja okkur sæmandi og faglega umgjörð um alla okkar starfsemi á einum stað - undir einu þaki í Tollhúsinu við höfnina. Þið sem hér sitjið munið væntanlega ekki njóta góðs af því sem nemendur, en það er von mín að þið munið njóta þessarar uppbygginar sem fullþroska listamenn í ykkar fagumhverfi þegar þar að kemur. Á næstu misserum skiptir því miklu máli að við stöndum saman um þessa framtíðaruppbyggingu, því hún mun breyta miklu fyrir næstu kynslóðir nemenda, fyrir gagnverk listanna þegar hún loks verður að veruleika. 
 
Á sama tíma var undirritaður samningur um stofnun kvikmyndadeildar við Listaháskólann. Í því felast miklir möguleikar, ekki einungis fyrir kvikmyndagerðarfólk heldur einnig fyrir allar aðrar listgreinar. Með þessari síðustu listgrein sem nær upp á háskólastig á Íslandi er einnig sérstaða Listaháskólans orðin umtalsverð á alþjóðavísu, sem háskóla er spannar allar greinar lista og hönnunar. Við fögnum því mjög þeim undirbúningi sem við ljúkum í vetur og munum taka á móti fyrstu nemendunum í kvikmyndanám um þetta leyti að ári. 
 
IV
Þetta er annað árið í röð sem við hefjum skólastarfið undir óvenjulegum kringumstæðum heimsfaraldursins. Engan óraði fyrir því í fyrra að slíkt gæti gerst, en nú er orðið ljóst við við búum við umtalsverða óvissu til lengri tíma og skólastarfið mun vitaskuld taka mið af því. Líkt og áður er það okkar að standa saman um að fara varlega, sýna samheldni og tillitssemi, skilning og traust, þannig að við komumst öll heilu og höldnu í gegnum þetta tímabil, sem óneitanlega er krefjandi. 
 
V
Að lokum óska ég ykkur alls hins besta frammi fyrir því sem bíður ykkar. Og nota um leið tækifærið til að minna ykkur á að listirnar hafa alltaf verið - er eru enn - þungamiðja hugmyndafræðilegrar og samfélagslegrar þróunar í gegnum söguna. Til þess að listir samtímans nái fullum slagkrafti þarf samfélagið á allri ykkar staðfestu að halda. Framtíðin er ykkar og það er á ykkar ábyrgð að fóstra framsækna hugsun og taka afstöðu með því sem er stærra en summan af okkur öllum, bæði í tíma og rúmi.