Hye Joung Park hefur verið ráðin í stöðu aðjúnkts við listkennsludeild Listaháskóla Íslands út skólaárið.
 
Hye mun koma að kennslu, undirbúningi og utanumhaldi námskeiða í deildinni og einnig stefnumótun nýrra sjónlistanámskeiða. Hye mun einnig taka stóran þátt í samstarfsverkefnum listkennsludeildar, innlendum sem erlendum.
 
Hye Joung Park kom fyrst til Íslands sem skiptinemi árið 1997 aðeins 19 ára gömul og fékk tækifæri til að kynnast íslenskri tungu, menningu og fólkinu í landinu. Ástríða hennar fyrir myndlist fékk að vaxa  á íslandi og hún hóf skólagöngu sína í myndlist árið 2000. Hún lauk BA námi við Listaháskóla Íslands árið 2005 og hélt út til  framhaldsnáms í Slade School of Art í University College of Art í London. Eftir útskift með MFA próf árið 2009 starfaði hún áfram sem myndlistarmaður bæði í London og Suður Kóreu. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga, vinnustofudvölum og útgáfu í Suður Kóreu en sneri aftur til Íslands árið 2017 eftir 11 ára fjarveru og hefur síðan þá lokið diplómanámi í keramík árið 2019  og diplóma í listkennslu árið 2021 á Íslandi. 
 
Forvitni hennar og meðhöndlun á efniviði leiðir vinnuna hennar á vinnustofunni. Hún hefur ástríðu fyrir hljóðum og kynngimögnuðum möguleikum skúlptúrsins sem hreyfir áhorfenda ekki bara innbyrðis heldur einnig í rýminu sem umleikur hann. Hye hefur verið staðsett á mismunandi hátt í samfélaginu, eins og til dæmis: sem innflytjandi, útlendingur eða heimamaður sem hefur lengi verið að heiman og þessi reynsla hefur haft áhrif á myndlistarsköpun hennar.  Hye kennir einnig handmótun og skúlptúr í Myndlistaskólanum í Reykjavík. 

 

hye_i_blarri_kapu.jpg