Praxis er árlegt sviðslistaþing Listaháskóla Íslands sem verður haldið í fyrsta sinn laugardaginn 16. september nk. Þingið er vettvangur fyrir listrænar tilraunir, þekkingarsköpun og samtal milli fagvettvangsins og háskólasamfélagsins. Þannig verður þingið staður fyrir sviðslistasenuna til að koma saman og deila aðferðum og/eða rannsóknum, og hugsa saman til framtíðar. Fyrsta þingið verður haldið í samstarfi við Þjóðleikhúsið, sem leggja til einn af viðburðum þingsins, en hugmyndin er að vera í samstarfi við ólíkar sviðslistastofnanir og/eða sjálfstæða hópa frá ári til árs.
Steinunn Ketilsdóttir, deildarforseti sviðslistadeildar og Nína Hjálmarsdóttir, lektor í sviðlistafræðum eru meðal skipuleggjanda Praxis. Við hittum þær á dögunum til að fá nánari upplýsingar um þingið.
Hvernig kviknaði hugmyndin að Praxis sviðslistaþingi?
Steinunn: Það gerðist í samtali, en við Nína vorum báðar í MA námi í Performance Studies við Tisch School of the Arts í New York University og þar er haldinn sambærilegur viðburður, sem ber einmitt sama nafn; Praxis, á hverri önn með góðum árangri. Okkur langaði að starta einhverju svipuðu hér heima.
Nína: Sviðslistasenan er í raun ung á Íslandi, og þar af leiðandi hefur ekki gefist mikill tími til að byggja upp faglega umræðu um fagið okkar. Við erum lítið samfélag og eðlilega getur myndast ótti við að gagnrýna því við erum öll svo tengd.
Steinunn: Okkar helsti hvati að Praxis er að búa til vettvang til að eiga samræður um hið listræna og aðeins það. Okkur er oft hætt við að fara frá þeirri mikilvægu umræðu og einblína á hluti eins og húsnæðismál, fjármögnun, pólitík og fleira.
Af hverju er Listaháskólinn standa fyrir svona þingi?
Nína: Listaháskólinn vill vera og á að vera mótandi afl í listum. Hugmyndin að baki skólanum var og er að hann sé afl tilrauna, afl pönksins, sem að mótar framtíð listarinnar. Með Praxis viljum við einmitt búa til þennan vettvang til að kalla saman fólk úr öllum áttum. Ekki bara þau sem lærðu í Listaháskólanum. Það er t.d. mikill og dýrmætur auður í þeim sem lærðu ekki í okkar deildum heldur fóru í nám erlendis. Þau koma til baka með önnur sjónarmið, þekkingu á víðtækum listrænum rannsóknum og fræðum sem hafa kannski ekki verið rædd hér í LHÍ.
Hverju getur fólk átt von á að fá út úr því að mæta?
Steinunn: Svona þing getur byggt brýr á milli þessara hópa og byrjað að hræra saman í góðan suðupott. Þingið á að kveikja í sköpunarkraftinum og gleðinni og kynda undir að fólk leyfi sér að hugsa stórt! Það er svo dýrmætt að svara því saman og í samtali. Spurningum eins og hvert viljum við stefna faglega í sviðslistum á Íslandi? Hver er okkar sérstaða sem samfélag? Við þurfum líka að velta því fyrir okkur hvernig við viljum ræða um listir og hvernig við viljum rýna til gagns - semsagt gagnrýni sem leiðir til framþróunar en lokar ekki á hana.
Nína: Galdrarnir munu síðan ekkert endilega eiga stað á fyrirlestrunum sjálfum, heldur í kaffipásunni eða í skálinni eftir að dagskrá líkur. Eða jafnvel mánuði síðar þegar þú hittir einhvern í heita pottinum í sundi.
Eins og fyrr segir þá fer Praxis fram í fyrsta sinn laugardaginn 16. september 2023 í húsnæði Listaháskóla Íslands við Laugarnesveg 91, 105 Reykjavík.
Hér má finna nánari upplýsingar og dagskrá.
Ljósmyndari/Steinunn: Leifur Wilberg
Ljósmyndari/Nína: Dóra Dúna