Opun Hugarflugs fór fram í gær í húsakynnum Listaháskólans í Laugarnesi. 
Hildur Guðnadóttir tónskáld opnaði þessa níundu listráðstefnu Listaháskólans með samtali við Fríðu Björk Ingvarsdóttur rektor skólans. 
 
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands heiðraði Hildi með ávarpi í upphafi samkomunnar. Hann nýtti tækifærið til þess að taka undir þau sterku og jafnframt mjúku skilaboð sem Hildur flutti heimsbyggðinni í þakkarræðu sinni á Óskarsverðlaununum þann 9. febrúar sl. Hann bað karlmenn, unga sem aldna, að tala minna og ekki hafa svona hátt - heimurinn þarf ekki alltaf að heyra það sem þeir hafa að segja. Þetta vakti mikla lukku meðal viðstaddra sem klöppuðu ákaft.
 
gudni_a_svidi.jpg
Guðni Th. Jóhannesson, Fríða Björk Ingvarsdóttir fagna Hildi í gegnum fjarfundabúnað. 

 

Stuðningur, frelsi og pláss

 
Aðspurð sagði Hildur að það sem hefði staðið upp úr tíma sínum hér í Listaháskólanum hafi verið að hún hafi fundið fyrir miklum stuðningi og frelsi í náminu sínu og það sem mikilvægara er að hafa fengið pláss til þess að þróa sig áfram. Forvitni væri það sem drífi hana áfram, það og tengingin við líkamann. Hún hefur mikla þörf að tengja inn á við og þjálfa líkamann, frumsköpunin kemur þaðan. Hún telur að lærdómur sé ferðalag og því erfitt að setja fingurinn á hvað hún hafi lært hvar. Hún telur að sellónámið hafi kennt henni agann sem þarf til að sitja við.
 
Fríða spurði Hildi út í formúlur og hefðir sem eru ríkjandi í bransanum, stundum verður einskonar listrænn núningur á milli kynslóða; er það eitthvað sem þú nýtir sem eldsneyti til að vera framsækin? Hún segist ekki vera að reyna að ögra þessum gildum hún sé bara gera það sem hún sé að gera. Ef hún hafi lent á kynjavegg þá hafi hún reynt að hrista það af sér. Hins vegar finnur hún mun í barnsanum, þá í Los Angeles. Það er að myndast meira traust og kvenntónskáldum sé fagnað og þær boðnar velkomnar.
 
Hvað er það sem nærir þín sál, þín sköpun?
Að fara á milli samtals við aðra og samtals við sjálfa mig. Ég verð að viðurkenna að ég er orðin mjög þreytt á því að tala um sjálfan mig, nú langar mig að fara að tala við sjálfan mig. Það er mikilvægt að hlusta ekki bara á aðra heldur líka á sjálfa mig, að hlusta á mína innri rödd.
 
fbi_gthj_ohv2.jpg
Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor LHÍ, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir ráðstefnustjóri Hugarflugs

 

Nemendur fengu tækifæri til þess að senda inn spurningar fyrirfram sem Fríða bar upp við Hildi.
 
Jóhannes Stefánsson tónsmíðanemi  í nýmiðlum spurði hvaða áhrif tímarammi hafi á vinnu hennar og hvort það sé ólíkt eftir því hvort hún sé að vinna að kvikmyndatónlist eða sínum eigin verkum?
Hún segir það sé einn áhættuþátturinn sem gerir það verkum að framleiðendur séu ragir við að ráða nýtt fólk, því að tónskáldið þarf að geta unnið undir mikilli pressu. Mér finnst mjög gott að hafa pressu og ég vinn mjög vel undir pressu. Ef ég er ekki að vinna fyrir aðra þá hef ég sett mér sjálf tímaramma. Það þarf samt að passa jafnvægið, maður verður að vera opinn, það er hætta að maður læsist. Maður verður að passa jafnvægið og ekki gleyma að hlusta á sig.
 
Aðspurð hvort hún vildi segja eitthvað að lokum vildi Hildur þakka fyrir sig. Hildur sagði að hún hefði fengið svo endalaust mikið af góðum straumum og fallegum kveðjum sérstaklega frá Íslandi. Hún geti ekki þakkað nógusamlega vel fyrir sig.
 
Að lokum þakkaði Fríða Björk Hildi fyrir samtalið og snéri myndavélinni út í sal þar sem ljósin voru sett upp og gestirnir stóðu allir á fætur, klöppuðu henni lof í lófa og hrópuðu húrra fyrir henni.
 
Hér má sjá samtalið við Hildi í fullri lengd.
 
Ljósmyndir: Leifur Wilberg Orrason