Tilnefning til nýsköpunarverðlauna forseta Íslands
Hulda er strengjahljóðfæri með innbyggðum ljósabúnaði. Ljós skúlptúrsins eru tengd við örtölvu sem túlkar tíðni tónanna og sendir skilaboð til ljósanna. Þannig kviknar á mismunandi lituðum ljósum eftir því hvernig leikið er á hljóðfærið. Ljósin varpa síðan breytilegri mynd yfir á vegg.
 
Markmiðið var að búa til skúlptúr sem hægt væri að nota til að búa til myndlist sem í eðli sínu svipar til tónlistar að því leytinu til að hún tekur stöðugum breytingum. Hugmyndin var að með skúlptúrnum yrði skapaður vettvangur fyrir tilraunastarfsemi listamanna úr mismunandi listgreinum. Skúlptúrinn yrði þannig útgangspunktur sem leiddi listamenn saman og út frá samstarfi þeirra yrðu til hugmyndir að ýmsum viðburðum.
 
Verkefnið var unnið af Lilju Maríu Ásmundsdóttur, nema frá Listaháskóla Íslands, undir handleiðslu Berglindar Maríu Tómasdóttur, dósents í flutningi og miðlun samtímatónlistar við LHÍ og Jóns Marinós Jónssonar, fiðlusmiðs.