Hugarflug 2021 

Kallað eftir tillögum 

 
Kallað er eftir tillögum að erindum og öðrum viðburðum fyrir dagskrá Hugarflugs 2021, árlegrar rannsóknaráðstefnu Listaháskóla Íslands sem fer fram í tíunda sinn föstudaginn 12. febrúar 2021, að þessu sinni með rafrænum hætti.  
Hugarflug er vettvangur fyrir opna, faglega og gagnrýna umræðu um listir, hönnun, og arkitektúr; um þekkingarsköpun á hinu víða sviði lista og skörun þeirra við önnur fræðasvið, með áherslu á fjölbreytileikann sem einkennir nálganir, aðferðir, efnistök, miðlun og rannsóknir sem þar er beitt. 
Við stöndum á vendipunkti í sögunni sem krefst þess af okkur að við ígrundum hlutverk og vægi listanna í endursköpun samfélaga í kjölfar meiriháttar heimsatburða eins og þeirra sem við lifum nú. Framundan eru ögrandi áskoranir í loftslags- og umhverfismálum, hringrásarhagkerfinu, lýðræðiseflingu og samfélagsgerðinni. Hvernig getum við svarað þessum áskorunum og ögrunum á vettvangi lista? Hvernig hefjumst við handa við að skilja og svara þeim djúpstæðu breytingum á umhverfi okkar sem við stöndum frammi fyrir? Hvernig nýtum við þá hugmyndafræðilegu endurnýjun sem er snar þáttur í listsköpun, umhverfi okkar og samfélagi til heilla? Hvernig hafa listirnar svarað slíkum áskorunum í sögunni?  Yfirskrift Hugarflugs 2021 er: 
 

Vendipunktur – Turning Point 
 

Eitt helsta markmið ráðstefnunnar er að bjóða upp á öruggt rými jafningja þar sem óhætt er að spyrja opinna spurninga, framkvæma tilraunir og kynna verkefni í vinnslu. Starfsfólk, nemendur og stundakennarar Listaháskólans, og annað starfandi listafólk, hönnuðir, arkitektar og fræðafólk eru hvött til að senda inn tillögur. 
Þar sem ráðstefnan verður rafræn hvetjum við þátttakendur til að nýta sér fjölbreyttar aðferðir, miðla og nálganir til að finna framlagi sínu viðeigandi umgjörð og form á stafrænan hátt. Framlag gæti til dæmis tekið á sig efnislegt eða sjónrænt form (sýning, innsetning, grafísk miðlun), verið sett á svið  (flutningur, gjörningur, inngrip) eða sett fram í orði (fyrirlestur, Pecha Kucha, sjálfsviðtal/samtalsform, hringborðsumræður, málstofa, vinnusmiðja).  Fyrir utan erindi og málstofur sem verða send út af LHÍ, verður aðeins tekið á móti fullunnum tillögum á borð við myndböndum, hljóði, ljósmyndum, texta og/eða öðrum kynningum á listrannsóknum, listsköpun, hönnun og arkitektúr. 
 
Tillögur skulu innihalda eftirfarandi: 
  • Nöfn, starfstitla og netföng þátttakenda. 
  • Lýsingu á framlagi (hámark 300 orð) þar sem titill, lengd (10, 20, 30, 40, 60 mín), lýsing á viðfangsefni, efnistökum, miðlunaraðferðum. 
  • Athugið að einungis verður tekið á móti fullunnum kvikmyndum, hljóðverkum, mynd og textum sem hugsað er til miðlunar með rafrænum hætti, ef kallið er samþykkt þarf að senda inn eigi síðar en 20. janúar.  
  • Fyrirlestrar, málstofur verður verða sendar út á rauntíma. 
  • Stuttan texta um þátttakendur (hámark 50-100 orð um hvern).    
Ef um samsettar málstofur eða viðburðir er að ræða þá skal annars vegar skila inn lýsingu á málstofunni/viðburðinum og hins vegar á hverju framlagi fyrir sig.   
 
Skilafrestur er til  1desember 2020  til að fylla út  umsóknareyðublað Hugarflugs   
Nánari spurningar má senda á netfangið hugarflug [at] lhi.is 
Ráðstefnan fer fram föstudaginn 12. febrúar 2021.   
 
Ráðstefnunefnd:   
Hanna Styrmisdóttir (formennska) 
Atli Ingólfsson 
Ásgerður Roberts Gunnarsdóttir 
Gunndís Ýr Finnbogadóttir 
Hildigunnur Sverrisdóttir 
Magnea Einarsdóttir 
Karólína Stefánsdóttir (verkefnastjóri)