Hugarflug 14. febrúar 2020

 

Kall eftir þátttöku/Open Call for Participation

 
Kallað er eftir efni fyrir Hugarflug, árlega ráðstefnu Listaháskóla Íslands, sem fram fer í níunda sinn föstudaginn 14. febrúar 2020.  
 
Ráðstefnan er vettvangur fyrir faglega og gagnrýna umræðu um þekkingarsköpun a sviðum lista og menningar, með áherslu á þann fjölbreytileika sem einkennir nálganir, aðferðir, efnistök og miðlun á þessum sviðum.  
 
Starfsfólk, nemendur og stundakennarar Listaháskólans jafnt sem annað starfandi listafólk, hönnuðir og fræðafólk eru hvött til að senda inn tillögur.
 
Eitt helsta markmið ráðstefnunnar er að bjóða upp á öruggt rými jafningja þar sem óhætt er að spyrja opinna spurninga, framkvæma tilraunir og kynna verkefni í vinnslu.
 

Að þessu sinni er kallað eftir tillögum tengdum þemanu FRÁSAGNIR

 
Þemað má túlka í víðasta skilningi og nálgast á ólíka vegu en meðal þeirra spurninga sem það gæti kallað á eru:  
 
Hvað eru frásagnir? 
Hver eru hlutverk frásagna í samtímanum?  
Með hvaða hætti nálgast ólíkar listgreinar og listafólk hugtakið frásagnir? 
Hvaða frásagnir eru ríkjandi/víkjandi?  
Hvað eru and-frásagnir eða óhefðbundnar frásagnir? 
Hvað með frásagnir sem ganga í berhögg við ríkjandi kerfi og skipulag? 
Hvernig getur frásögn falist í miðlun handan tungumálsins? 
Hvernig líta frásagnir út í sögulegu og þvermenningarlegu samhengi? 
Hver eru tengsl frásagna við tækni og vísindi, framleiðslu og miðlun, framfarir og samfélagsleg átök, vandamál og lausnir þeirra? 
Hvers konar sögur segjum við um sjálf okkur og aðra?  
Þarf alltaf að vera frásögn? 
 
Við hvetjum þátttakendur til að nýta sér fjölbreyttar aðferðir og miðla til að finna framlagi sínu viðeigandi umgjörð og form. Framlag gæti til dæmis tekið á sig efnislegt eða sjónrænt form (sýning, innsetning, grafísk miðlun), verið sett á svið  (flutningur, gjörningur, inngrip) eða sett fram í orði (fyrirlestur, Pecha Kucha, sjálfsviðtal/samtalsform, hringborðsumræður, vinnusmiðja).  
 
Þátttakendur eru einnig sérstaklega hvattir til að gera tillögur að samsettum málstofum eða viðburðum þar sem fleiri en eitt framlag tvinnast saman í eina heild.
 
Tillögur skulu innihalda eftirfarandi: 
 
*Nöfn, starfstitla og netföng þátttakenda
*Lýsingu á framlagi (hámark 300 orð) þar sem titill, lengd (30, 60, 90 eða 120 mín.), lýsing á viðfangsefni, efnistökum, miðlunaraðferðum og sérstökum rýmis- og/eða tækniþörfum (reynt verður að mæta þeim þörfum innan skynsamlegra marka) koma fram. 
*Stuttan texta um þátttakendur (hámark 50-100 orð um hvern).  
 
Ef um samsettar málstofur eða viðburðir er að ræða þá skal annars vegar skila inn lýsingu á málstofunni/viðburðinum og hins vegar á hverju framlagi fyrir sig.  
 
Skilafrestur er til 25. nóvember 2019 og sendast tillögur á netfangið hugarflug [at] lhi.is
 
Ráðstefnan fer fram í húsnæði Listaháskólans að Laugarnesvegi 91 föstudaginn 14. febrúar 2020.  
 
Ráðstefnunefnd:  
Marteinn Sindri Jónsson (nefndarformaður) 
Ásgerður Gunnarsdóttir 
Ingimar Ólafsson Waage 
Jesper Pedersen 
Páll Haukur Björnsson 
Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir (verkefnastjóri)