Hugarflug 15. - 16. febrúar 2019

 
Kallað er eftir efni fyrir Hugarflug, árlega ráðstefnu Listaháskóla Íslands, sem verður haldin í níunda sinn 15.-16. febrúar 2019.
 
Ráðstefnan er vettvangur fyrir faglega og gagnrýna umræðu um þekkingarsköpun í listum og menningu, með áherslu á þann fjölbreytileika sem einkennir nálgun, aðferðir, efnistök og miðlun á sviðinu.
 
Starfsmenn, nemendur og stundakennarar Listaháskólans, jafnt sem aðrir starfandi listamenn, hönnuðir og fræðimenn eru hvattir til að senda inn tillögur, en eitt helsta markmið ráðstefnunnar er bjóða upp á öruggt rými jafningja þar sem óhætt er að spyrja opinna spurninga, framkvæma tilraunir og kynna verkefni í vinnslu.
 

Líkami/líkamleiki

 
Að þessu sinni er sérstaklega kallað eftir tillögum tengdum þemanu líkami/líkamleiki. Þemað má túlka mjög vítt og nálgast á ólíka vegu en meðal þeirra spurninga sem það gæti kallað á eru:
 
Á hvaða hátt er líkaminn uppspretta þekkingar; hvaða hlutverk leikur hann í þekkingarsköpun okkar og veru í heiminum?
Hver eru tengslin á milli líkama dýra, plantna og manna?
Hver eru tengslin á milli líkamans og tækni?
Hver eru tengslin á milli ytri og innri skynjunar líkamans?
 
Kallið afmarkast þó ekki við þemað og frjálst er að senda inn tillögur alls ótengdar þemanu.
 
Við hvetjum þátttakendur til að nýta sér fjölbreyttar aðferðir og miðla til að finna framlagi sínu viðeigandi umgjörð og form. Framlag gæti t.d. tekið á sig efnislegt eða sjónrænt form (sýning, innsetning, grafísk miðlun), performans (flutningur, gjörningur, inngrip) eða framsetningu í orði (fyrirlestur, Pecha Kucha, sjálfsviðtal/samtalsform, hringborðsumræður, vinnusmiðja).
 
Þátttakendur eru einnig sérstaklega hvattir til að gera tillögur að samsettum málstofum eða viðburðum þar sem fleiri en eitt framlag tvinnast saman í eina heild.
 
Tillögur skulu innihalda eftirfarandi:
 
• Nöfn, starfstitla og netföng þátttakenda.
• Lýsingu á framlagi (300 orð) þar sem titill, lengd (30, 60, 90 eða 120 min), lýsing á viðfangsefni, efnistökum og miðlunaraðferðum kemur fram.
• Stuttan texta um þátttakendur (50-100 orð um hvern).
 
Ef um samsettar málstofur eða viðburðir er að ræða þá skal annars vegar skila inn lýsingu á málstofunni/viðburðinum og hins vegar hverju framlagi fyrir sig.
 
Skilafrestur er til 26. nóvember 2018 og sendast tillögur á netfangið hugarflug [at] lhi.is.
 
Ráðstefnan fer fram í húsnæði Listaháskólans að Laugarnesvegi 91.
 
Ráðstefnunefnd:
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir
Ásgerður Gunnarsdóttir
Garðar Eyjólfsson
Hildur Bjarnadóttir
Þorbjörg Daphne Hall
Verkefnisstjóri: Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir